„Sendiráðið okkar í Moskvu er í samskiptum við Íslendinga sem eru á svæðinu en þetta er ekki stór hópur, samkvæmt gögnum Hagstofunnar er þetta innan við 40 manns.
Síðan verður líka sett út tilkynning á samfélagsmiðlum sendiskrifstofunnar þar sem fólk á þessum slóðum er beðið um að láta vita af sér,“ segir Sveinn H. Guðmarsson fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins í samtali við mbl.is í morgun.
Í tilkynningunni sem birtist rétt í þessu á facebooksíðu sendiráðsins í Moskvu kemur fram að Íslendingar í Rússlandi séu hvattir til að fara varlega og fylgjast vel með gangi mála. Þá eiga þeir einnig að láta vita af sér með því að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
Samkvæmt fréttaveitunni AFP hafa þjóðir líkt og Noregur einnig gert ráðstafanir. Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra segir í samtali við NRK að fylgst sé með ástandinu í Moskvu og að Norðmenn í landinu séu beðnir að hafa samband við utanríkisráðuneytið.
„Við fylgjumst náið með ástandinu í Rússlandi og erum í nánu sambandi við sendiráðið í Moskvu. Utanríkisráðuneytið ræður frá öllum ferðum til Rússlands,“ er haft eftir Huitfeldt.