Þrjár konur úr boðhlaupssveit Bandaríkjanna, sem vann gull í 4x100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016, hafa reynt að eignast börn. Bæði Tianna Madison og Allyson Felix lentu í miklum hremmingum við að fæða börn sín og Tori Bowie lést nýverið af barnsförum. Allar eru þær þeldökkar.
Felix vekur athygli á þessu í bandaríska tímaritinu Time en mikil umræða hefur verið um öryggi þeldökkra kvenna í fæðingu eftir sviplegt fráfall Bowie. „Við erum að tala um krísu meðal svartra kvenna,“ segir Felix. „Hér erum við með þrjá ólympíumeistara og við erum samt í hættu,“ bætir hún við og á þar við að þær hafi allar verið ungar og vel á sig komnar líkamlega.
Bowie var 32 ára þegar hún fannst látin á heimili sínu í byrjun maí. Hún var komin átta mánuði á leið og ófætt stúlkubarn hennar dó einnig. Sögusagnir fóru á kreik um að Bowie hefði stytt sér aldur eða að henni hefði jafnvel verið ráðinn bani en krufningarskýrsla tók af öll tvímæli – hún lést af barnsförum. Að því er fram kemur í skýrslunni var banamein hennar fæðingarkrampi í kjölfar meðgöngueitrunar og fleiri tengdra kvilla.
Felix kveðst hafa fengið meðgöngueitrun á sinni meðgöngu en dóttir hennar, Camryn, fæddist árið 2018. Hún var send með hraði á spítala, þar sem dóttir hennar var tekin með bráðakeisaraskurði eftir aðeins 32 vikna meðgöngu. „Ég vissi ekki hvort ég myndi hafa það af, hvort ég myndi nokkurn tíma halda á hinni yndislegu dóttur minni.“
Tianna Madison (sem stundum er kölluð Tianna Bartoletta) þurfti að eiga sitt barn eftir 26 vikur vegna heilsufarsvandamála.
Felix kveðst, eins og svo margar svartar konur, ekki hafa gert sér grein fyrir hættunni sem fylgdi meðgöngunni en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni Centers for Disease Control and Prevention frá árinu 2021 þá eru svartar konur í Bandaríkjunum 2,6 sinnum líklegri til að látast af barnsförum en hvítar konur. Þá benda rannsóknir til þess að hvergi í hinum þróaða heimi séu dauðsföll kvenna algengari í eða rétt eftir fæðingu en einmitt í Bandaríkjunum.
„Um það bil fimm dögum áður en ég átti Camryn var ég að snæða þakkargjörðarmáltíð með fjölskyldu minni og nefndi að ég væri með bjúg á fótunum,“ segir Felix. „Fleiri við borðið töluðu um sína reynslu af meðgöngunni, frænka mín fékk einnig bjúg en mamma ekki. Enginn minntist á að það gæti verið vísbending um fæðingareitrun. Þegar ég varð ófrísk settist læknirinn minn ekki niður með mér og gerði mér grein fyrir kvillum sem ég ætti að vera vakandi fyrir á meðgöngunni vegna þess að mér væri meiri hætta búin en öðrum.“
Við þetta ástand verður ekki unað, að dómi Felix. „Þessu verður að breyta, strax, sérstaklega í ljósi hörmulegs fráfalls Toriar. Nú er vakning. Serena Williams var rétt dáin á meðgöngu og Beyoncé fékk meðgöngueitrun. Það er ömurlegt að dauða Toriar þurfi til að koma þessu aftur á kortið og vekja fólk til umhugsunar um vandann. En oftar en ekki þurfum við á slíkri áminningu að halda.“
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.