Jevgení Prigósjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, verður ekki sóttur til saka fyrir að hvetja til vopnaðrar uppreisnar gegn rússneskum stjórnvöldum. Það sama gildir um Wagner-málaliðana.
Þetta sagði Dmitrí Peskov, talmsaður Kremlar, og bætti við að rússneska þjóðin hefði ávallt borið virðingu fyrir frammistöðu málaliðanna í fremstu víglínunni.
Er Prigósjín nú sagður á leið til Hvíta-Rússlands.
Rússnesk stjórnvöld lýstu því yfir í gærkvöld að þau hefðu gefið út handtökuskipun á hendur Prigósjín fyrir að hvetja til vopnaðrar uppreisnar, en við því broti liggur fangelsi á bilinu 12-20 ár.
Prigósjín lýsti í gær yfir stríði á hendur Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, sem hann sakaði um að hafa staðið að baki eldflaugaárás á eina af bækistöðvum málaliðahópsins.
Peskov sagði að samkomulag hefði verið gert við Prigósjín til að forðast blóðsúthellingu. Þá ætti uppreisn Wagner-málaliðanna ekki að hafa áhrif á framgang stríðsins í Úkraínu.
Ekki liggur fyrir hver framtí9ð Shoígú í embætti verður.