Ólíklegt að Prigósjín kembi hærurnar

Að sögn Jóns Ólafssonar, prófessors í Rússlandsfræðum og menningarfræði við …
Að sögn Jóns Ólafssonar, prófessors í Rússlandsfræðum og menningarfræði við Háskóla Íslands, er Lúkasjenkó einungis milliliður í samningum Pútíns við Prigósjín og Wagner-liðana. Samsett mynd

„Að mörgu leyti er það sérstakt af Pútín að vera búinn að gefa út þessar hörðu yfirlýsingar og veita svo Wagner-liðum sakaruppgjöf en svona samningar eru gerðir mjög hratt og ég held að allt bendi til þess að þessu máli sé ekki alveg lokið.

Þó verið sé að segja núna að Prigósjín verði ekki sóttur til saka fyrir þetta að þá held ég að hann muni nú ekki kemba hærurnar, mér þykir það nú frekar ólíklegt.“

Þetta segir Dr. Jón Ólafsson, prófessor í Rússalandsfræðum og menningarfræði við Háskóla Íslands, inntur eftir því í samtali við mbl.is hvort hegðun og viðbrögð Pútíns séu ekki á skjön við yfirlýsingar hans.

Ólíklegt að Prigósjín fái að leika lausum hala

Þá segir Jón ákveðna taktík fólgna í því að láta Wagner-liðana halda að þeir hafi komið vel út úr stöðunni að einhverju leyti.

„Áður en þetta gerðist, eða fyrir nokkrum vikum, var búið að tilkynna að Wagner-hópurinn yrði leystur upp í þeim skilningi að þeir þyrftu allir að skrá sig í gegnum varnarmálaráðuneytið sem gerir þennan hóp að opinberum hluta rússneska heraflans frekar en að þeir séu einkaherdeild eins og þeir hafa verið fram að þessu.

Það á samt eftir að koma í ljós hvernig það ferli gengur,“ segir Jón og bætir því við að mótþrói Prigósjín síðustu vikur og mánuði og sú harða gagnrýni sem hann hefur haldið á lofti gagnvart hernaðaryfirvöldum í Rússlandi sé í rauninni afleiðing af þessari ákvörðun. Þá segir Jón að teljast verði ansi ólíklegt að Prigósjín fái að leika lausum hala eftir atburði síðustu daga.

Sýnir ákveðinn veikleika og öryggisleysi

Að mati Jóns sýnir Pútín ákveðinn veikleika með því að fara þá leið að semja en hins vegar hafi hinn kosturinn í stöðunni verið sá að út brytust átök nálægt Moskvu ef Prigósjín og hans menn hefðu fengið að halda sínu striki.

„Maður getur ímyndað sér að ef niðurstaðan hefði verið að beita fyllstu hörku og vera ekki að ná neinum samningum, þá er ekki ólíklegt að menn hefðu farið að þeim mörkum við Moskvu þar sem þeir hefðu verið stöðvaðir og þá hefðu orðið átök og mannfall. Maður getur því skilið frá taktísku sjónarmiði að það er mikilvægt fyrir Pútín og rússnesk stjórnvöld að láta það ekki gerast. Þetta sýnir samt auðvitað og gefur til kynna öryggisleysi og ákveðna ringulreið í stjórnkerfinu.“

Lúkasjenkó einungis milliliður

Spurður út í hlutverk Hvíta-Rússlands í þessum átökum segir Jón að greinilegt sé að einhverjir samningar hafi átt sér stað á milli Lúkasjenkós og Prigósjín en ekki séu öll kurl komin til grafar í þeim málum.

„Ég myndi giska á að það sé biðleikur að senda Prigósjín til Hvíta-Rússlands en Lúkasjenkó er enginn samningamaður. Það eina sem að gerist er að hann býður Prigósjín eitthvað samkvæmt fyrirmælum Pútíns og Prigósjín þiggur það. Hlutur Lúkasjenkós í þessu er ekki sjálfstæður, hann er í rauninni bara milliliður en kemur vel út úr þessu því það lítur út eins og hann sé einhver áhrifavaldur í málinu sem er nokkuð ljóst að hann er ekki,“ segir Jón og ítrekar hve mikilvægt það var fyrir rússnesk stjórnvöld að stoppa Wagner-liðana.

„Ef óróinn hefði haldið áfram og óvissa um hvað væri að gerast og Wagner-liðar hefðu skapað sér einhverja stöðu og það væru hugsanlega átök framundan, það hefði verið hrikalegt fyrir Rússana en það er alla vega ekki staðan núna. Nú er spurningin frekar hvernig verður framhaldið og hvaða stöðu hafa menn?“

Ólíklegt að Prigósjín verði fyrirgefið

Spurður að lokum um framtíð Prigósjín eftir þetta allt saman segir Jón stöðu hans óljósa en ólíklegt sé að hann komist upp á dekk. 

„Þó verið sé að segja núna að hann verði ekki sóttur til saka fyrir þetta að þá held ég að hann muni nú ekki kemba hærurnar, mér þykir það nú frekar ólíklegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert