Vladimír Pútín, forseti Rússlands, stóð frammi fyrir stærstu áskoruninni á langri valdatíð sinni á laugardag þegar Jevgení Prigósjín, stofnandi og leiðtogi Wagner-málaliðahópsins hét því að steypa herforystu Rússlands af stóli.
Prigósjín, sem lengi hefur staðið í deilum við Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, lýsti á föstudag yfir stríði á hendur ráðherranum. Sakaði hann Shoígú um að hafa staðið að baki eldflaugaárás á eina af bækistöðvum málaliðahópsins.
Prigósjín sendi frá sér röð skilaboða frá því seint á föstudegi fram á laugardag þar sem hann fullyrti að hann og hermenn hans hefðu farið inn í borgina Rostov-on-Don í suðurhluta Rússlands og náð stjórn á herstöðvum hennar.
Það kom af stað röð óvenju hraðvirkra atburða, þar sem Wagner-liðar hótuðu upphaflega að marsera til Moskvu áður en Prigósjín tilkynnti skyndilega að hann hefði hætt við og skipað mönnum sínum að hörfa til baka til bækistöðva sinna.
Hvað kom uppreisninni af stað?
Um margra mánaða skeið hefur Prigósjín staðið í valdabaráttu við æðstu hermenn rússneska hersins og sakað þá um að vera valdur að dauða hermanna sinna í austurhluta Úkraínu.
Hann hefur ítrekað sakað þá um að hafa ekki séð her sínum fyrir búnaði á fullnægjandi hátt og um að halda í skefjum framförum í stríðsrekstrinum með skrifræði, sem og að eigna rússneska hernum sigra sem Wagner-liðar hafa unnið.
Á föstudag sauð upp úr þegar Prigósjín sakaði herforystu Rússlands um að hafa fyrirskipað árásir á Wagner-búðirnar og drepið fjölda hans manna.
Tilkynnti hann í kjölfarið að her hans hefði skotið niður rússneska herþyrlu. Nokkrum klukkustundum síðar sagðist hann hafa náð stjórn á herstöðvum Rússa í Rostov á Don í suðurhluta landsins.
Rússneska lögreglan gerði þá áhlaup á skrifstofu Wagner-hópsins í Pétursborg og grímuklæddir menn nálguðust hótel og veitingastað tengdum Prigósjín.
Héldu Wagner-liðar áfram á vegi sínum til Moskvu og náðu yfirráðum yfir allri hernaðaraðstöðu í borginni Voronezh, miðja vegu milli Rostov á Don og höfuðborgarinnar.
Skyndilega tilkynnti Alexander Lúkasjenkó, forseti Belarús, að hann hefði náð samkomulagi við Prigósjín sem Prigósjín sjálfur staðfesti skömmu síðar. Sagði Prigósjín að hermenn hans myndu hörfa aftur til bækistöðva sinna til að forðast blóðsúthellingar.
Hvernig hafa stjórnvöld í Kreml brugðist við?
Pútín hefur kallað uppreisn Wagner-liða banvæna ógn við Rússland og hvatti landsmenn til að sameinast. Hann kallaði þá tilburðina landráð og hét refsingu.
Öryggisgæsla var hert í Moskvu og á fleiri svæðum landsins eins og í borgunum Rostov og Lipetsk og ferðatakmarkanir voru settar á hér og þar.
Fregnir bárust af því um miðjan dag í gær að háttsettir embættismenn í Moskvu hefðu yfirgefið borgina og haldið í átt til St. Pétursborgar eða nágrennis. Þannig sást flugvél Pútíns á flugradar á leiðinni norður, en Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, neitaði því að hann væri farinn frá Moskvu.
Flugvél Mikhaíls Misjústín, forsætisráðherra Rússlands, sást einnig fara á loft frá Moskvu á leið til St. Pétursborgar. Þá var Denis Manturov aðstoðarforsætisráðherra Rússlands sagður hafa yfirgefið landið.
Hverjir eru Wagner-málaliðarnir?
Wagner-málaliðarnir hafa tekið þátt í átökum í Miðausturlöndum og Afríku, þó alltaf hafi þeir neitað fyrir það.
Jevgení Prigósjín viðurkenndi á síðasta ári að hafa stofnað Wagner-málaliðahópinn og fengið hermennina úr rússneskum fangelsum í skiptum fyrir sakaruppgjöf þeirra.
Málaliðasveitin hefur verið leiðandi í bardögum Rússa í austurhluta Úkraínu og var í fararbroddi í mánaðarlangri árás á Bakhmut. Hertók sveitin svæðið fyrir Rússland sem kostaði hana mikið mannfall.
Hvað er næst hjá Wagner?
Samkvæmt samningnum, sem samið var um fyrir milligöngu Lúkasjenkós, sögðu Kremlverjar að Prigósjín myndi halda til Hvíta-Rússlands og að sakamál gegn honum yrði fellt niður og að liðsmenn Wagner yrðu ekki sóttir til saka.
Hvaða áhrif hefur uppreisnin á stríðiðí Úkraínu?
Uppreisn Wagner markaði stærstu áskorunina á langri valdatíð Pútíns og þá alvarlegustu öryggiskreppu sem hann hefur þurft að horfast í augu við síðan hann komst til valda árið 1999.
Uppreisnin stefndi í að beina athygli Rússa frá vígvellinum í Úkraínu á sama tíma og her Úkraínumanna er í miðri gagnsókn í að ná til baka herteknum landsvæðum.
Á meðan á uppreisninni stóð hófu úkraínskar hersveitir nokkrar nýjar gagnsóknir og gerðu tilkall til meira landsvæðis.
Aðstoðarvarnarmálaráðherrann Ganna Malyar sagði úkraínskar hersveitir hafi ráðist á rússneskar línur nálægt borgunum Orikhovo-Vasylivka, Bakhmut, Boпdanivka, Yagidne, Klishchivka og Kurdyumivka og sótt fram í allar áttir.
Volodimír Selenskí forseti sagði að Pútín væri líklega mjög hræddur og leynist líklega einhvers staðar. Selenskí hefur einnig ítrekað fyrri kröfur sínar um að vestrænir bandamenn útvegi öll þau vopn sem nauðsynleg eru til varnar í innrásarstríði Rússa.
Í kjölfar samkomulagsins við Prigósjín sögðu Kremlverjar að upphlaupið hefði engin áhrif á sókn hersins í Úkraínu.
Dr. Jón Ólafsson, prófessor í Rússalandsfræðum og menningarfræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is í dag, það að mörgu leyti er sérstakt af Pútín að vera búinn að gefa út þessar hörðu yfirlýsingar og veita svo Wagner-liðum sakaruppgjöf.
Sagði hann þó að samningar sem þessir væru gerðir mjög hratt og telur hann að málinu sé ekki alveg lokið.
„Þó verið sé að segja núna að Prigósjín verði ekki sóttur til saka fyrir þetta að þá held ég að hann muni nú ekki kemba hærurnar, mér þykir það nú frekar ólíklegt.“