Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, sögðust fylgjast gaumgæfilega með þróun mála í Rússlandi. Þau sögðu óeirðir síðustu daga bjóða upp á mikla óvissu og því sé mikilvægt að vera við öllu búin.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í Ráðherrabústaðnum í dag að loknum fundi ráðherranna tveggja.
„Atburðarrás gærdagsins var mjög hröð,“ sagði Katrín. „Ég tel okkur vera að fylgjast mjög náið með ástandinu, en ég held það sé óhætt að segja að við getum ekki leyft okkur að trúa því að þetta hafi verið endalok átakanna.“
Petteri Orpo tók undir með Katrínu, en hann sagði að erfitt væri að segja til um hvað framtíðin bæri í skauti sér.
„Við vitum ekki hvað gerist næst en við verðum að vera mjög varkár og vel undirbúin,“ sagði Orpo. Hann bætti því við að áhyggjur hans um afdrif Finnlands í átökum Rússlands hefðu minnkað í kjölfar þess að landið varð aðildarríki NATO í apríl.
„Ég er mjög ánægður að Finnland sé aðildarríki NATO,“ sagði Orpo. „Nú erum við hluti af bandalagi, eigum okkur bandamenn og erum vel undirbúin,“ bætti hann við.