Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur nú gefið út sína fyrstu yfirlýsingu eftir átökin sem áttu sér stað þar í landi í gær.
Í viðtali við ríkissjónvarpið Rossiya segist Pútín vera í stöðugu sambandi við embættismenn varnarmálaráðuneytisins.
Þetta kemur fram á sænska ríkisfréttamiðlinum SVT.
Þá segist Pútín einnig finna fyrir miklu trausti þegar kemur að því að framfylgja öllum áætlunum og verkefnum sem tengjast stríðinu í Úkraínu og segir hann að verkefnið þar sé í forgangi.
„Ég byrja og enda daginn á því,“ er haft eftir Pútín í viðtalinu en athygli vekur að hann var ekki spurður neinna spurninga um uppreisn Prigósjín í þeim hluta viðtalsins sem nú þegar hefur verið sýndur. Viðtalið í heild sinni verður sýnt í rússnesku sjónvarpi síðar í dag.