Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, er mikill aðdáandi sundlauga á Íslandi. Hann skellti sér þó ekki í sund í Vestmannaeyjum í morgun en ætlar að fara í sund í Reykjavík síðdegis, eins og hann gerir alltaf þegar hann kemur til Íslands.
mbl.is ræddi stuttlega við Støre eftir blaðamannafund norrænu forsætisráðherranna í Eldheimum í dag.
Støre minntist þess að hann var tólf ára gamall þegar eldgosið hófst í Vestmannaeyjum og man glöggt eftir því. „Ég man líka að foreldrar mínir tóku þátt í að skipuleggja sumarfrí til Noregs fyrir fjölskyldur sem misstu heimili sín í eldgosinu,“ segir Støre í samtali við mbl.is.
Forsætisráðherrann norski hafði ekki komið til Vestmannaeyja fyrr en nú og sagði upplifunina áhrifamikla. „Það er magnað að sjá þennan blómlega bæ, öllum þessum árum síðan. Hér er líflegt samfélag og mikil tækniþróun í sjávarútvegi,“ segir Støre.
Blaðamanni lá á að vita hvort Støre hefði farið í sund í morgun, en hann sagði í viðtali við NRK í maí, að hann færi alltaf í sund á Íslandi.
„Nei, ég fór ekki morgun því ég hafði ekki tíma,“ sagði forsætisráðherrann. „En ég fór að skoða kirkjuna. Kirkjan er gríðarlega falleg en það voru Norðmenn sem gáfu Vestmannaeyjum hana,“ segir Støre og á þar við Stafkirkjuna við Hringskersgarð afhent var árið 2000, á 1.000 ára afmæli kristnitökunnar.
Støre lofaði óformlega gestrisni Íslendinga og sagði frábært að fundurinn hafi farið fram í Vestmannaeyjum í ár.