Sonja Sif Þórólfsdóttir
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, segir að staða Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, sé veikari eftir atburði helgarinnar. Hún segir för Wagner-málaliðahópsins í átt að Moskvu hafa komið á óvart og þá sérstaklega hraðinn sem sveitirnar voru á í gegnum landið.
„Þetta var ótrúleg atburðarás. Wagner-hersveitirnar fara mjög hratt yfir á leið sinni til Moskvu. Það vakti þær spurningar hjá mér hvort þær nytu aðstoðar einhverra innan landsins,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið.
Katrín segir ráðamenn hafa fylgst grannt með atburðarásinni um helgina.
„Um leið kom líka á óvart þessi skyndilega umpólun þegar þeir hverfa frá þessari ferð sinni,“ segir Katrín en líkt og fram hefur komið stöðvuðu Wagner-sveitirnar sókn sína skyndilega á laugardagskvöld.
„Þarna voru gríðarlega þung orð látin falla. Stór orð. Ég hefði talið að það gæti stefnt í harkalegt og afdrifaríkt uppgjör. Ég myndi telja að þó að hlutirnir hafi róast þá getum við raun og veru ekki sagt til um að þessu sé lokið,“ segir Katrín, spurð um hvernig hún haldi að næstu vendingar verði í stríðinu og í Rússlandi.
„Það er ekki gott fyrir heimsbyggðina ef upplausn skapast í stærsta kjarnorkuveldi heimsins og við munum ræða þetta,“ segir Katrín. Spurð hvað þetta upphlaup segi um ástandið í Rússlandi segir hún erfitt að geta sér til um það. „Ég myndi telja að staða Pútíns sé veikari eftir þetta. En svo verðum við bara að sjá hvernig þetta þróast,“ segir Katrín.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.