Láta eins og ekkert hafi í skorist

Stjórnvöld í Rússlandi gera nú sitt besta til þess að sjá til þess að allt líti út fyrir að vera í eðlilegum horfum eftir uppreisn Wagner-liða sem stóð yfir í tæplega sólarhring. Ekkert hefur sést til Jevegní Prígósjón, stofnanda og leiðtoga Wagner-málaliðahópsins, síðan á laugardaginn. 

Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands og eitt helsta skotmark Prigósjíns, mætti í nótt til einnar stjórnstöðvar rússneskra hersveita í Úkraínu og hélt þar fund með leiðtoga einnar herdeildarinnar, samkvæmt myndum sem rússneska ríkissjónvarpið sýndi.

Á fundinum lét ráðherrann eins og ekkert hafði í skorist um helgina og talaði hann um „mikla skilvirkni“ rússneska hersins við uppgötvun og eyðingu vopnakerfa og hermanna Úkraínu.

Skjáskot af heimsókn varnamálaráðherrans á rússneska herstjórnarstöð í Úkraínu.
Skjáskot af heimsókn varnamálaráðherrans á rússneska herstjórnarstöð í Úkraínu. AFP/Varnarmálaráðuneyti Rússlands

Ekkert heyrst frá Pútín né Prígósjín

Borgarstjóri Moskvu, Sergei Sobjanín, tilkynnti í morgun á samskiptamiðlinum Telegram að borgin myndi aflétta öllum ráðstöfunum sem áttu að verja íbúa fyrir mögulegri uppreisn og hryðjuverkum.

Yfirvöld höfðu hvatt íbúa til að halda sig heima fyrir og þá voru settar ferðatakmarkanir á víða. Borgarstjórinn bætti því einnig við að ástandið væri orðið „stöðugt“ og þakkaði borgarbúum fyrir „skilning á aðstæðum“. Svipaðar afléttingar eru upp á teningnum í Voronezh-héraðinu.

Pútín sjálfur hefur enn ekki komið fram opinberlega síðan uppreisninni lauk og Prigósjín sást síðast á laugardag fara frá borginni Rostovon á Don í suðurhluta borgarinnar í vopnaðri Wagner-bílalest. Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi segja við CNN að þeir viti ekki hvar Prígósjín er staddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert