Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að leiðtogar uppreisnarinnar úr Wagner-hópnum muni mæta réttvísinni. Óbreyttir málaliðar fái hins vegar að tækifæri til þess að fara til Hvíta-Rússlands, ganga til liðs við rússneska herinn eða að fara heim.
Þetta kom fram í stuttri upptöku sem birt var á í rússneskum miðlum í dag. Er þetta í fyrsta skipti sem Pútín lætur í sér heyra eftir að Wagner-liðar hættu uppreisn sinni.
Eins og fram hefur komið hafa Wagner-liðar barist samhliða rússneska hernum þar til málaliðahópurinn marseraði skyndilega til Rússlands og yfirtók borgina Rostov á Don, þaðan sem aðgerðum Rússa í Úkraínu er stýrt.
Þaðan hélt hópurinn í átt að Moskvu áður en Jevgení Prigósjín, stofnandi hópsins, ákvað skyndilega að stöðva sókn manna sinna í átt að höfuðborginni.
Prigósjín sagði í ávarpi á samfélagsmiðlinum Telegram í dag að hann hafi aldrei ætlað sér að hertaka Moskvu. Aðgerðir hópsins í Rússlandi hafi verið viðbragð við tilraunum yfirvalda til að yfirtaka hópinn og nýta í þágu hersins.
Þá hafi uppreisnin einnig verið mótmæli vegna þeirra mistaka sem gerð hafa verið í innrásinni í Úkraínu.
Ávarp Prigósjín var hið fyrsta frá því hann samþykkti að stöðva sókn Wagner í Rússlandi í skiptum fyrir sakaruppgjöf og tækifæri til þess dvelja í Hvíta-Rússlandi.
Sagði hann þar að ástæða þess að hann hafi hætt við sóknina til Moskvu hafi verið til að koma í veg fyrir úthellingu blóðs rússneskra hermanna. Þá sagði hann jafnframt að fjöldi óbreyttra borgara hafi verið vonsvikna sökum þess að uppreisnin stöðvaðist. Hið sama virðist uppi á teningnum hjá hans eigin liðsmönnum sem hafa keppst við að formæla Prigozhin eftir að hann lét af áætlunum sínum.
Á upptöku er haft eftir Pútín að hann hafi gert það sem þurfti til að koma í veg fyrir blóðsúthellingar. En jafnframt hrósaði hann Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, fyrir að hafa milligöngu og tala um fyrir Wagner-liðum.
Þá sagði hann Vesturlönd ala á óeiningu innan Rússlands og að menn mættu ekki missa sjónar á því hver óvinurinn væri.