Tók með sér Rubik-kubb í Titan

Feðgarnir Su­lem­an og Shahzada Dawood.
Feðgarnir Su­lem­an og Shahzada Dawood. AFP/Dawood Hercules Corporation

Hinn 19 ára gamli Suleman Dawood, sem fórst í Titan kafbátinum, tók með sér Rubik-kubb í kafbátinn þar sem hann vildi setja nýtt heimsmet í að leysa þrautina. 

Þetta sagði Christine Dawood, móðir Suleman, í viðtali við BBC en faðir hans, Shahzada, lést einnig í slysinu. 

Christine og dóttir hennar, Alina, voru um borð í Polar Prince, aðstoðarskipi kafbátsins, er fréttir bárust af því að samskipti höfðu rofnað við Titan. 

„Ég áttaði mig ekki á því á þeirri stundu hvað það þýddi, og eftir það versnaði bara ástandið,“ sagði Christine í sínu fyrsta viðtali eftir að örlög feðganna urðu ljós. 

Hún ætlaði ásamt eiginmanni sínum að skoða Titanic en ferðinni var aflýst vegna heimsfaraldursins. Suleman fór síðan í hennar stað. 

Auk Dawood feðganna lést hinn 61 árs gamli Stockton Rush, forstjóri OceanGate sem átti Titan, hinn 58 ára gamli Breti Hamish Harding og hinn 77 ára gamli Paul-Henry Nargeolet sem var áður í franska sjóhernum. 

Tók Rubiks-kubb með sér hvert sem hann fór

Christine sagði að Suleman hafi verið mikill aðdáandi Rubik-kubbsins og tekið þrautina með sér hvert sem hann fór. 

„Hann sagði: Ég ætla að leysa Rubik-kubbinn á 3.700 metra dýpi við Titanic.“

Suleman var nemi við háskóla í Glasgow í Skotlandi.

Christine sagði að fjölskyldan hefði faðmast og hlegið rétt áður en feðgarnir fóru um borð í kafbátinn. 

„Ég var mjög ánægð fyrir þeirra hönd því þetta var eitthvað sem þeir vildu báðir gera í mjög langan tíma,“ sagði hún.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert