Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins NATO, telur uppreisn Wagner-málaliðahópsins um helgina sýna að innrás Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu hafi verið „mistök“.
„Við fylgjumst með ástandinu í Rússlandi. Atburðirnir um helgina eru innra mál Rússa og enn eitt merkið um þau stóru mistök sem Pútín forseti gerði með ólöglegri innlimun Krímskaga og stríðinu gegn Úkraínu,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundi í Litháen í dag.
Leiðtogafundur NATO verður haldinn í Litháen í næsta mánuði.
Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sem einnig er staddur í Litháen, sagði að uppreisnin sýndi að Rússland væri „óstöðugt og ófyrirsjáanlegt ríki“.
Gitanas Nauseda, forseti Litháens, sagði atburði helgarinnar sýna óstöðugleika stjórnvalda í Rússlandi.
„Búast má við svipuðum eða jafnvel stærri áskorunum í framtíðinni,“ sagði hann á fundinum.