Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði hermönnum sem hann ræddi við í Kreml að þeir hefðu komið í veg fyrir borgarastyrjöld eftir uppreisn málaliðahópsins Wagner um síðustu helgi.
Einnar mínútu þögn var sömuleiðis haldin fyrir þá flugmenn sem létust eftir átök við hópinn.
„Í raun og veru komuð þið í veg fyrir borgarastyrjöld,“ sagði Pútín við hermennina.
„Í átökum við uppreisnarmennina voru félagar okkar úr röðum flugmanna drepnir. Þeir gáfu ekkert eftir og fylgdu eins og sannir heiðursmenn þeim fyrirskipunum sem þeir fengu og sinntu sínum hernaðarlegu skyldum,“ sagði Pútín áður en einnar mínútu þögnin var haldin.
Forsetinn greindi ekki frá því hversu margir flugmenn féllu í átökunum.