Lögregla skaut 17 ára dreng til bana

Óeirðir brutust út í úthverfum Parísar í nótt eftir að …
Óeirðir brutust út í úthverfum Parísar í nótt eftir að lögregla skaut ungling til bana í gær. AFP/Zakaria Abdelkafi

Óeirðir brutust út í úthverfum Parísar í nótt eftir að lögregla skaut ungling til bana í gær. Drengurinn var 17 ára gamall og gegndi ekki fyrirmælum lögreglu um að stöðva bifreið sína. 

Tveir lögreglumenn gáfu manninum, sem hefur verið nefndur Naël M, merki um að stöðva bifreiðina eftir að hann braut umferðarlög. 

Lögreglan greindi fyrst frá því að annar lögreglumannanna hafi skotið  Naël M af því að hann var að keyra í átt að lögreglumönnunum. Myndskeið sem birtist á samfélagsmiðlum gefur hins vegar annað til kynna.

„Þú færð byssukúlu í höfuðið

Myndskeiðið sýnir lögreglumennina standa við hlið bifreiðar Naël M sem er kyrrstæð. Annar lögreglumannanna beinir byssu að drengnum og þá heyrist einhver segja: „Þú færð byssukúlu í höfuðið“.

Þá virðist sem lögreglumaðurinn hleypir af skoti þegar bifreiðin fer skyndilega af stað. 

Bílinn keyrði áfram nokkra metra áður en hann keyrði á. Ökumaðurinn lést stuttu síðar. 

31 handtekinn 

Í nótt brutust út óeirðir í úthverfum Parísar. Kveikt var í ruslatunnum og þá var kveikt í tónlistarskóla. Lögregla beitti táragasi á mótmælendur. 

Gerald Darmanin innanríkisráðherra greindi frá því í dag að 31 hafi verið handtekinn, 24 lögreglumenn særðust og kveikt var í um 40 bílum. 

Lögreglumaðurinn sem skaut Naël M er 38 ára gamall. Hann hefur verið handtekinn og er grunaður um manndráp af gáleysi. 

BBC greinir frá því að þetta er í annað sinn á þessu ári sem franska lögreglan skýtur mann til bana eftir umferðarlagabrot. 

Meðal þeirra sem hafa harmað andlát Naël M á samfélagsmiðlum er fótboltastjarnan Kylian Mbappe og leikarinn Omar Sy. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka