Lögreglan leyfir Kóranbrennu

Sænsk-danski öfgamaðurinn Rasmus Paludan heldur á Kóraninum við tyrkneska sendiráðið …
Sænsk-danski öfgamaðurinn Rasmus Paludan heldur á Kóraninum við tyrkneska sendiráðið í Stokkhólmi 21. janúar. AFP/Fredrik Sandberg

Lögreglan í Stokkhólmi hefur leyft að Kóraninn, helgirit múslima, verði brenndur í mótmælum við mosku í Södermalm í dag og hefur, eftir því sem TV4 greinir frá, kallað eftir liðsauka frá öllu landinu til að bæla niður þau átök sem reiknað er með að geti brotist út við brennuna.

Mótmælaleyfið sem lögreglan hefur gefið út nær til tveggja þátttakenda eftir því sem sænska fréttastofan TT greinir frá. Öðrum þeirra hafði lögregla áður synjað um að fá að brenna ritið fyrir framan sendiráð Íraks í Stokkhólmi og bar hann þá synjun undir stjórnsýsludómstól sem dæmdi hana ólöglega og á það féllst millidómsstigið sænska, kammarrätten, eftir áfrýjun lögreglu.

Rökstyður lögregla ákvörðun sína nú, um að leyfa brennuna, með því að sú áhætta og þær hugsanlegu afleiðingar sem brennan geti haft í för með sér teljist ekki það stórvægilegar að réttlæti synjun.

Tyrknesk stjórnvöld fyrtust rækilega við þegar dansk-sænski öfgamaðurinn Rasmus Paludan brenndi Kóraninn fyrir framan tyrkneska sendiráðið í Stokkhólmi í janúar. Ekkert varð fyrir vikið af fyrirhugaðri heimsókn sænska varnarmálaráðherrans Pål Jonson til Tyrklands til að ræða umsókn Svía um inngöngu í Atlantshafsbandalagið.

Fredrik Hallström, yfirmaður andhryðjuverkadeildar sænsku öryggislögreglunnar Säpo, sagði í viðtali við TT í maí að aðgerðir á borð við Kóranbrennur gleymdust ekki heldur yrðu um langt skeið hluti af ímynd Svíþjóðar á alþjóðavettvangi sem lands sem bryti gegn gildum íslam.

Aftonbladet

TV4

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert