Mistök 13 fangavarða leiddu til dauða Epstein

Jeffrey Epstein lést í fangelsi árið 2019.
Jeffrey Epstein lést í fangelsi árið 2019. AFP

Alvarlegir misbrestir í fangelsi í New York leiddu til þess að kynferðisafbrotamaðurinn Jeffrey Epstein var fær um að taka eigið líf, samkvæmt nýrri skýrslu dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

Fangaverðir brugðust skyldum sínum með því að skilja Epstein eftir einan og framkvæma ekki leit í klefa hans. Í skýrslunni, sem er 120 blaðsíðna löng, segir að þrettán starfsmenn hafi brugðist skyldum sínum, að því er BBC greinir frá.

Epstein, sem var sakaður um kynferðisbrot gegn börnum, þurfti aldrei að svara til saka fyrir dómstólum þar sem hann lést í fangelsi í ágúst 2019, 66 ára að aldri. Niðurstaða krufningar leiddi í ljós að hann hefði tekið eigið líf með því að hengja sig.

Fangaverðir fölsuðu skjöl

Fram kemur að fangaverðir hafi vanrækt að fylgjast með Epstein og falsað síðan skjöl til að leyna mistökum sínum. Þá hafi eftirlitsmyndavélar á staðnum ekki virkað og því engin myndbandsupptaka til sem sýni klefa Epstein kvöldið sem hann lést.

„Samspil vanrækslu, misferlis og beinlínis misbrests á vinnuframmistöðu stuðlaði að umhverfi þar sem að öllum líkindum einn alræmdasti fanginn í haldi BOP (Federal Bureau of Prisons) var skilinn eftir án eftirlits og einn í klefa sínum,“ sagði Michael Horowitz, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.

Í svari sínu við skýrslunni sagði Colette Peters, forstjóri Fangelsismálastofnunar Bandaríkjanna, niðurstöðurnar vera alvarlegar, en að þeir sem væru sakaðir um misferli væru mjög lítið hlutfall af um það bil 35 þúsund starfsmönnum í meira en 120 fangelsisstofnunum.

Í skýrslunni er því hafnað að dánarorsök Epsteins væri einhver önnur en sjálfsvíg, en ýmsum samsæriskenningum um dauðdaga hans hefur verið haldið á lofti.

Metropolitan-fangelsinu í New York, þar sem Epstein var í haldi, var lokað árið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert