Muni verjast ógnum frá Moskvu og Minsk

Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, Jonas Gahr Store, forsætisráðherra Noregs, …
Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, Jonas Gahr Store, forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, Gitanas Nauseda, forseti Litháens, Andrzej Duda, forseti Póllands, Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu og Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu eftir kvöldverðarfundinn. AFP/Simon Wohlfahrt

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í kvöld að NATO myndi verjast öllum ógnum, sama hvort þær kæmu frá „Moskvu eða Minsk“.

Ummæli Stoltenbergs féllu í kjölfar þess að stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi tóku á móti Jevgení Prigósjín, stofnanda Wagner-málaliðahópsins, en hann hélt þangað í útlegð eftir herför hópsins til Moskvu um helgina.

Hermt hefur verið að hluti hópsins muni fylgja foringja sínum til Hvíta-Rússlands og hafa því vaknað spurningar um hvort að nágrannaríkjum Hvíta-Rússlands muni standa ógn af Wagner-hópnum. 

Munu styrkja varnir NATO-ríkja

Stoltenberg sat kvöldverðarboð í Hollandi í kvöld ásamt leiðtogum Albaníu, Belgíu, Hollands, Litháens, Noregs og Rúmeníu, en fundi þeirra var ætlað að undirbúa jarðveginn fyrir leiðtogafund NATO, sem verður haldinn í Vilníus í næsta mánuði. Sagði Stoltenberg við blaðamenn í kvöld að  bandalagsríkin myndu samþykkja að styrkja varnir sínar á fundinum og verður þar sérstaklega hugað að þeim ríkjum sem eiga landamæri að Hvíta-Rússlandi. 

Stoltenberg sagði of snemmt að draga ályktanir um mögulega komu Prigósjíns og Wagner-liða til Hvíta-Rússlands. „Það sem er algjörlega ljóst er að við höfum sent skýr skilaboð til Moskvu og Minsk að NATO er til staða og mun verja alla bandamenn og hvern þumlung af landsvæði NATO,“ sagði Stoltenberg. 

Sagði hann jafnframt að stjórnvöld í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi ættu ekki að vera í neinum vafa um getu bandalagsins til þess að verjast öllum mögulegum ógnum, hvort sem Wagner-hópurinn væri þar á meðal eða ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert