Réttarhöld yfir bandaríska leikaranum Kevin Spacey hófust í dag í London. Alls eru ákæruliðirnir á hendur honum tólf talsins og er honum gert að sök að hafa brotið kynferðislega á fjórum karlmönnum frá árinu 2001 til ársins 2013.
Réttarhöldin halda áfram á föstudaginn og er gert ráð fyrir því að þau muni standa yfir í fjórar vikur. Spacey segist saklaus af þessum ákærum.
Spacey var kærður í tveimur öðrum málum á síðustu árum í Bandaríkjunum þar sem hann var í bæði skiptin ásakaður um kynferðisbrot gagnvart karlmönnum. Í einu málinu var hann sýknaður en hinu málinu vísað frá. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu.
Kevin Spacey á magnaðan kvikmyndaferil að baki en er hvað þekktastur fyrir að hafa leikið í myndunum American Beuty, L.A. Confidential og The Usual Suspects. Einnig sló hann í gegn sem aðalleikarinn í þáttunum House of Cards.