Vissu af skipulagningu uppreisnarinnar

Uppreisnin var skyndilega stöðvuð á laugardaginn þegar Wagner-liðar nálguðust Moskvu.
Uppreisnin var skyndilega stöðvuð á laugardaginn þegar Wagner-liðar nálguðust Moskvu. AFP/Natalía Kolesníkóva

Jev­gení Prigó­sjín, leiðtogi Wagner-málaliðahóps­ins, ætlaði að handsama yfirmenn innan rússneska hersins í uppreisninni sem hann leiddi í síðustu viku.

Mennirnir sem um ræðir höfðu þó fengið fregnir af skipulagningu uppreisnarinnar og komu sér þannig undan.

Frá þessu greinir Wall Street Journal.

Samkvæmt heimildum miðilsins ætlaði Prigósjín að handsama bæði Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, og Valerí Gerasímov, æðsta yfirmann hersins.

Breytingar á ferðalögum

Rússneska leyniþjónustan (FSB) er sögð hafa komist á snoðir um áætlanir Prigósjín og í framhaldinu voru breytingar gerðar á ferðaskipulagi mannanna tveggja. 

Breytingarnar gerðu það að verkum að Prigósjín varð að hrinda áætlun sinni fyrr af stað.

Þá segir einnig í umfjöllun miðilsins að bandarískir embættismenn hafi vitað af skipulagningu uppreisnarinnar mörgum dögum áður en Prigósjín lagði af stað með málaliðana þrammandi í átt að Moskvu.

Bandamenn lögðu honum ekki lið

Þá herma heimildir New York Times einnig að Sergei Súróvíkin, hershöfðingi og yfirmaður rússneska flughersins, hafi verið með upplýsingar um uppreisnina nokkrum dögum áður en Wagner-liðarnir létu til skarar skríða. 

Talið er að leki upplýsinga til yfirmanna innan rússneska hersins hafi fælt bandamenn Prigósjín frá því að leggja honum lið í uppreisninni, og að lokum leitt til þess að hún misheppnaðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert