150 handteknir í óeirðum í Frakklandi

Eldur slökktur í bíl í hverfinu Nanterre, vestur af París …
Eldur slökktur í bíl í hverfinu Nanterre, vestur af París í morgun. AFP/Geoffroy Van der Hasselt

Franska lögreglan handtók 150 manns snemma í morgun vegna áframhaldandi óeirða í landinu eftir að lögregluþjónn skaut 17 ára pilt til bana. Kveikt var í bílum og flugeldum skotið á loft.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kallaði ríkisstjórn sína til neyðarfundar í morgun vegna málsins. Hann segir óeirðirnar í nótt vera „óréttlætanlegar“.

„Síðustu klukkustundirnar hefur ofbeldi verið beint gegn lögreglustöðvum en einnig skólum og bæjarskrifstofum...gegn stofnunum og lýðveldinu,“ sagði Macron á ríkisstjórnarfundinum og bætti við að „þessar árásir eru algjörlega óréttlætanlegar“.

Mótmælendur í hverfinu Nanterre í gærkvöldi.
Mótmælendur í hverfinu Nanterre í gærkvöldi. AFP/Geoffroy Van der Hasselt

„Nótt uppfull af ofbeldi sem ekki er hægt að umbera. Ráðist var gegn táknmyndum lýðveldisins og kveikt var í eða árásir gerðar á byggingar stjórnvalda, skóla og lögreglustöðvar,“ sagði innanríkiráðherrann Gerald Darmanin á Twitter, þar sem hann tilkynnti jafnframt um handtökurnar.

Móðir Nahel M., piltsins sem var skotinn til bana, hefur óskað eftir því að ganga verði haldin í úthverfi Parísar, Nanterre, seinnipartinn í dag til minningar um einkabarnið hennar.

Lögregla stendur vörð skammt frá ónýtum bíl í hverfinu Nanterre, …
Lögregla stendur vörð skammt frá ónýtum bíl í hverfinu Nanterre, vestir af París í morgun. AFP/Geoffroy Van der Hasselt

Átök á milli mótmælenda og lögreglunnar voru með rólegra móti til að byrja með í gærkvöldi í París en þau jukust til muna eftir miðnætti. Óeirðir voru einnig í fleiri frönskum borgum á borð við Toulouse, Dijon og Lyon. Um 2.000 lögreglumenn voru að störfum til að ná tökum á ástandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka