40.000 manna lögreglulið kallað út

Búið er að kalla út 40.000 manna lögreglulið til að vera á vaktinni víðsvegar í Frakklandi í dag vegna fyrirhugaðra mótmæla sem hafa verið skipulögð í kjölfar þessa að franskir lögreglumenn skutu unglingspilt til bana í vikunni. Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands greindi frá þessu í dag.

Um 5.000 lögreglumenn verða á vaktinni í og við París, höfuðborg Frakklands, að sögn Darmanin. Hörð mótmæli og óeirðir hafa brotist út í kjölfar þess að lögreglan skaut 17 ára unglingspilt til bana. Pilturinn neitaði að stöðva bifreið sína við umferðareftirlit sem varð til þess að lögreglan hóf skothríð.

Landsmenn sýni yfirvegun

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hvatti landsmenn til að sýna ró og yfirvegun en alls hafa um 180 manns verið handtekin í kjölfar mótmæla. Þá hefur fólk ráðist á opinberar byggingar. 

Pilturinn, Nahel M., var skotinn í bringuna af stuttu færi í Nanterre, sem er úthverfi í París, á þriðjudag. Atvikið hefur leitt til háværrar umræður um starfsaðferðir lögreglunnar í landinu. 

Kveikt var í bifreiðum og tunnum í París og víðar í landinu í nótt. Mótmælendur skutu einnig flugeldum að óeirðalögreglumönnum sem beittu leiftursprengjum á hópinn. Þá var kveikt í lestarvagni í úthverfi Parísar. 

Komnir með nóg

„Við erum orðin þreytt á þessari meðferð. Þetta er fyrir Nahel, við erum Nahel,“ sögðu tveir ungir menn sem kalla sig „Hefnendur“ er þeir ýttu stórum ruslatunnum að brennandi vegartálma í Parísarborg. 

Macron segir að ekki sé hægt að réttlæta óeirðirnar í nótt en hann hélt neyðarfund með ríkistjórninni. Hann segir að ganga þar sem Nahel verði minnst í Nanterre eigi að fara fram með friði og spekt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka