Frönsk yfirvöld búast við áframhaldandi óeirðum í landinu vegna unglingspilts sem lögregluþjónn skaut til bana.
Fjöldi fólks hefur safnast saman undanfarin tvö kvöld til að mótmæla ofbeldi lögreglu og því óréttlæti sem fólst í bana piltsins. Hefur þá verið mikið um ofbeldisverk og óttast frönsk yfirvöld að mótmælin haldi áfram næstu nætur.
Gera þau ráð fyrir að ofbeldisfullum mótmælaaðgerðum verði beint að yfirvöldum og táknum ríkisins. Hafa því 40.000 lögregluþjónum um allt landið verið gert að bregðast við frekari mótmælum.
Þá hafa kvöldferðir strætisvagna og lesta í París verið stöðvaðar frá og með deginum í dag og í einu úthverfi borgarinnar, Clamart, hefur verið lýst yfir útgöngubanni næstu nætur, milli kl. 9 að kvöldi og 6 að morgni.