Fjórir menn hlutu í morgun samtals 68 ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Vestfold í Tønsberg í Noregi fyrir mismunandi aðild sína að því þegar Bård Lanes var skotinn til bana á bílastæði við verslunarmiðstöðina Kilen þar í bænum að kvöldi 20. apríl 2021 fyrir þær sakir að vera uppljóstrari lögreglunnar um málefni eins stærsta fíkniefnasala Tønsberg og nágrennis. Hefur mbl.is áður fjallað ítarlega um örlög Lanes.
Tæplega þrítugur maður, sem skaut Lanes með breyttri startbyssu, hlaut 18 ára fangelsisdóm, svokallaðan forvaring-dóm sem aðeins háskalegustu afbrotamenn hljóta, svo sem Anders Behring Breiviká sínum tíma.
Þetta réttarúrræði er þeirrar náttúru að hægt er að framlengja dóminn, án nýrra réttarhalda, teljist hinn brotlegi að mati geðfróðra manna líklegur til að brjóta af sér á nýjan leik.
Skotmanninum var einnig gert að greiða kærustu Lanes 300.000 norskar krónur í bætur, jafnvirði tæplega 3,8 milljóna íslenskra króna.
Annar hinna dæmdu, fíkniefnasalinn og sá sem Andreas Christiansen héraðssaksóknari og lögregla telja að hafi pantað víg Lanes, og situr reyndar þegar í fangelsi fyrir önnur brot, hlaut 18 ára dóm til viðbótar við þá refsingu sem hann nú afplánar.
Ökumaður bifreiðar, sem ásamt skotmanninum veitti Lanes og kærustu hans eftirför er þau hugðust heimsækja sólbaðsstofu í Kilen-verslunarmiðstöðinni, hlaut 16 ára dóm fyrir sinn þáttí málinu og að lokum hlaut 23 ára gamall maður 16 ár fyrir aðild að málinu.
Kvað fjölskipaður héraðsdómur upp einróma dóm í málinu, meðal annars með þessu dómsorði Ketil Sondresen dómsformanns: „Hafið er yfir allan vafa að 28 ára gamli maðurinn skaut og drap [Lanes] og að um skipulagða aðgerð var að ræða. Líklega var búið að skipuleggja drápið þegar í mars 2021. Sönnunargögnin eru svo ótvíræð að ekki er unnt að taka mark á þeim skýringum sem [skotmaðurinn] hefur gefið.“
Í dómsforsendum kemur enn fremur fram að fíkniefnasalinn, sá sem sat þegar í fangelsi fyrir, hafi kosið Lanes örlög og skipað fyrir um drápið. Höfðu þeir átt í deilum um langt árabil og óttaðist sölumaðurinn Lanes vegna tengsla hans við lögregluna og meint hlutverk hans sem uppljóstrara. Neitaði ákærði því þó alla aðalmeðferð málsins að illvirkið hafi verið skipulagt fyrir fram.
Sá sem skaut tók verkefnið að sér vegna skuldastöðu sinnar sem hann hugðist rétta af með því sem hann fékk greitt fyrir að myrða Lanes á bílastæðinu við Kilen. Segir í dóminum að um hreina aftöku hafi verið að ræða. Hafa dæmdu þegar tekið ákvörðun um að áfrýja til lögmannsréttar.
Vigdis Hegg, vinkona Lanes heitins, segir við norska ríkisútvarpið NRK að engin refsing ákærðu bæti fyrir missi kærs vinar sem verið hafi hvers manns hugljúfi í Tønsberg en þetta síðasta getur sá sem hér skrifar raunar staðfest eftir að hafa rætt við fjölda fólks úr undirheimum norska smábæjarins sem á sér þó gríðarstóran fíkniefnamarkað.