Óheimilt að horfa til kynþáttar og þjóðernis

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði á fimmtudag bann við því að horfa …
Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði á fimmtudag bann við því að horfa til kynþáttar og þjóðernis við inntöku í háskóla. AFP/Jim Watson

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði á fimmtudag bann við notkun kynþáttar og þjóðernis við inntöku í háskóla. Úrskurðurinn hróflar við reglum sem hafa verið í gildi í áratugi, en markmið þeirra var að auka menntunartækifæri Bandaríkjamanna af afrískum uppruna. 

„Horfa verður á nemandann á grundvelli reynslu hans sem einstaklings, ekki á grundvelli kynþáttar,“ skrifaði John Roberts, forseti Hæstaréttar í meirihlutaáliti, en þeir sex dómarar sem skipaðir voru af repúblikönum studdu allir niðurstöðuna, en þeir þrír sem skipaðir voru af demókrötum skiluðu mótatkvæði. 

Í úrskurðinum kemur fram að háskólum sé frjálst að taka tillit til persónulegrar reynslu einstaka umsækjanda, þar að segja hvort einstaklingurinn hafi til dæmis alist upp við kynþáttafordóma, við mat á hæfi umsækjanda.

En að ákveða hæfi umsækjanda fyrst og fremst út frá því hvort hann sé hvítur, svartur eða annað er í sjálfu sé kynþáttamismunun, skrifaði Roberts. „Stjórnarskrársagan okkar þolir ekki það val,“ sagði hann.

Stefnan gerð til að auka jafnrétti til náms

Með úrskurðinum féllst dómstóllinn á kröfur baráttuhópsins Students for Fair Admissions, sem stefndi elstu einkareknu og opinberu háskólum landsins, annars vegar Harvard og hins vegar háskólanum í Norður-Karólínu (UNC) vegna inntökustefnu þeirra.

Hópurinn hélt því fram að inntökustefnur sem tækju tillits til kynþáttar hefðu mismunað jafnhæfum eða hæfari Bandaríkjamönnum af asískum uppruna sem sóttu um að komast inn í háskólana tvo til þess að hygla Bandaríkjamönnum af afrískum uppruna. 

Harvard og UNC, eins og fjöldi annarra samkeppnishæfra skóla í Bandaríkjunum, líta á kynþátt eða þjóðerni umsækjanda sem lið í því að tryggja fjölbreyttan nemendahóp og fulltrúa minnihlutahópa í skólunum. 

Stefna um jákvæða mismunum spratt af borgararéttindahreyfingunni á sjöunda áratugnum og miðaði að því að hjálpa til við að takast á við arfleið mismununar í æðri menntun gegn Ameríkumönnum af afrískum uppruna. 

Úrskurðurinn er sigur fyrir íhaldsmenn sem sumir hafa haldið því fram að jákvæð mismunun sé í grundvallaratriðum ósanngjörn. Aðrir hafa sagt að stefnan hafi lifað lengur en hennar var þörf þar sem menntunarmöguleikar svartra og annarra minnihlutahópa hafi nú batnað mikið. 

Dómarinn Sonia Sotomayor, sem skrifaði minnihlutaálit dómsins, sagði ákvörðunina „snúa við fordæmum síðustu áratuga og afdrifaríkum framförum“. „Með þessu staðfestir dómstóllinn yfirborðslega litblindureglu sem stjórnarskrárreglu í landlægu aðskilnu samfélagi,“ skrifaði hún, en óttast er að úrskurðurinn geti haft þau áhrif að mörg ríki og stofnanir hætti að taka tillit til minnihlutahópa í inntökuferli bandarískra háskóla, og þannig aftur ýtt undir misrétti á milli kynþátta í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka