Prigósjín getur ekki treyst Lúkasjenkó

Svetlana Tsíkanovskaja á Íslandi í maí síðastliðnum.
Svetlana Tsíkanovskaja á Íslandi í maí síðastliðnum. AFP/John Macdougall

Forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lúkasjenkó, gæti svikið Jevgení Prigósjín, leiðtoga Wagner-hópsins, þrátt fyrir að hafa boðið honum skjól í landinu eftir að hann hætti við uppreisn sína í Rússlandi.

Þetta sagði hvítrússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn Svetlana Tsíkanovskaja, sem er í útlegð.

„Þeir eru ekki samherjar. Þeir geta ekki treyst hvor öðrum,“ sagði hún við AFP.

„Á hverri stundu getur Lúkasjenkó svikið Prigósjón og Prigósjón getur svikið Lúkasjenkó.“

Alexander Lúkasjenkó segist hafa beðið Vladimír Pútín um að þyrma …
Alexander Lúkasjenkó segist hafa beðið Vladimír Pútín um að þyrma lífi Jevgení Prigósjín. Samsett mynd

Lúkasjenkó greindi frá því á þriðjudaginn að Prigósjón hefði flogið til Hvíta-Rússlands eftir að hafa komið á sátt til að binda enda á uppreisn Wagner-hópsins.

Tsíkanovskaja segir margt óljóst í tengslum við samkomulagið. Hún telur jafnframt að þetta útspil Lúkasjenkó um að koma Pútín til aðstoðar snúist um að halda völdum í Hvíta-Rússlandi.

„Hann gerði þetta ekki til að bjarga andliti Pútíns eða til að bjarga Prigósjón, eða til að koma í veg fyrir borgarastríð í Rússlandi,“ sagði hún.

„Hann gerði þetta bara til að halda sjálfur velli vegna þess að Lúgasjenkó veit að ef stjórnvöld í Rússlandi eru veikburða þá verður Lúkasjenkó næstur í röðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka