Rússneski hershöfðinginn Sergei Surovikin hefur verið handtekinn í kjölfar uppreisnar Wagner-málaliðahópsins síðasta laugardag.
Þetta herma heimildir The Moscow Times, innan úr varnarmálaráðuneyti Rússlands. Er Surovikin sagður hafa valið að vera hliðhollur Prígósjín, leiðtoga og stofnanda Wagner-málaliðahóspins, í uppreisninni.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur ekkert viljað gefa upp um hvort þetta sé á rökum reist. Ekki er vitað hvar Surovikin er niðurkominn en einn stríðsbloggari, Vladímír Rómanov sem er hliðhollur Rússlandi og stuðningsmaður innrásar þeirra í Úkraínu, segir að Surovikin hafi verið handtekinn á sunnudag, eða einum degi eftir uppreisn Wagner-liða.
Dimítrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, segir þessar fréttir vera „getgátur“ og „slúður“.
Surovikin var æðsti hershöfðingi hersveita Rússlands í Úkraínu í þrjá mánuði frá október 2022 þangað til í janúar á þessu ári.