Lögreglan í Frakklandi handtók 875 mótmælendur og óeirðaseggi í nótt. Um helmingur þeirra var handtekinn í París.
Innanríkisráðuneyti Frakklands greinir frá þessu.
Alls skemmdust 492 byggingar í nótt, 2.000 farartæki voru brennd og kveikt var í á 3.880 stöðum, samkvæmt upplýsingum sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti gaf á neyðarfundi með ríkisstjórn sinni í dag.
Mótmælin hafa verið fjölmenn undanfarna daga en þau brutust út í kjölfar þess að lögregluþjónn skaut 17 ára pilt til bana.
Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, sagði að ríkisstjórnin væri að íhuga „alla möguleika“ til að koma á reglu í landinu, þar á meðal að lýsa yfir neyðarástandi.
Verði neyðarástandi lýst yfir gerir það stjórnvöldum kleift að takmarka samkomur og setja útgöngubann.