Frönsk yfirvöld fjölga lögregluþjónum í viðbragðsstöðu við óeirðum mótmælenda í landinu um 5.000 í kvöld.
Í gær var 40.000 lögregluþjónum gert að bregðast við ofbeldisfullum mótmælendum en í dag voru 45.000 lögregluþjónar kallaðir til starfa.
Byggist sú ákvörðun á því að í gær náði lögregla ekki að koma í veg fyrir fjölda skemmdarverka og ofbeldisbrota. Voru þá 492 mannvirki skemmd og kveikt var í 2.000 ökutækjum. Alls voru kveiktir 3.880 eldar á landsvísu samkvæmt tölum stjórnvalda.
Er þessi fjölgun lögregluþjóna hluti af viðbragðsáætlun Frakklandsforseta, Emmanuels Macrons, sem hefur lagt áherslu á að gæta meðalhófs við viðbragðsaðgerðir.