Neyðarfundir boðaðir vegna óeirða í Frakklandi

Bíll brennur í óeirðunum í borginni Bordeaux.
Bíll brennur í óeirðunum í borginni Bordeaux. AFP/Philippe Lopez

249 lögregluþjónar slösuðust í mótmælum gærkvöldsins í borgum Frakklands. Að minnsta kosti 667 mótmælendur og óeirðaseggir hafa verið handteknir í mótmælunum sem hafa nú staðið yfir í þrjá daga. Mótmælin eru í kjölfar þess að lögregluþjónn skaut 17 ára unglingspilt til bana. Emmanuel Macron mun taka neyðarfund með ríkisstjórninni sinni í dag.

Mótmælin hafa verið fjölmenn síðustu daga en þau byrjuðu í París en hafa nú einnig sprottið upp meðal annars í frönsku borgunum Marseille, Roubaix, Bordeaux og Nantes. 40.000 lögregluþjónar voru kallaðir til víðsvegar af landinu til að takmarka óeirðirnar. Brotist hefur verið í búðir, bílar brenndir og eignir skemmdar.

Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo boðaði neyðarfund sem hófst klukkan 08:00. Ríkisstjórn Macrons mun einnig funda í dag, þó er ekki vitað klukkan hvað. Sumir hafa kallað eftir því að neyðarástandi verði lýst yfir í landinu en það myndi gefa stjórnvöldum grundvöll til þess að takmarka samkomur og setja útgöngubann. Nokkrir ráðherrar sögðu þó í gær að það kæmi ekki til greina. 

Óeirðaseggir brenna eignir í mótmælunum.
Óeirðaseggir brenna eignir í mótmælunum. AFP/Philippe Lopez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka