Strætis- og sporvagnaþjónusta í Frakklandi mun stöðvast frá og með klukkan níu í kvöld að staðartíma í kjölfar mótmæla í landinu undanfarna daga. Þá verður sala á stórum flugeldum bönnuð.
Innanríkisráðuneyti Frakklands greinir frá þessu.
Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir jafnframt að héraðsstjórar verði beðnir um að banna sölu og flutning á bensínbrúsum, sýrum og öðrum eldfimum vökva.
Hörð mótmæli brutust út fyrir nokkrum dögum eftir að lögregluþjónn skaut 17 ára pilt til bana.
Franska lögreglan mun nota brynvarða bíla til að stöðva óeirðir, að sögn Elisabeth Borne forsætisráðherra.
Þá hefur stórum opinberum viðburðum í landinu verið aflýst.