„Pabbi fékk heilaskaða eftir að hafa unnið við bílamálun og andað að sér eiturefnum í vinnunni allan daginn, hann er ítalskur en mamma er norsk,“ segir „Freddy“ sem við skulum kalla svo í þessu viðtali. Það er þó ekki það nafn sem hann skartar í norsku þjóðskránni en látum það liggja milli hluta.
Freddy er einn umsvifamesti heróínsalinn í Tønsberg, 60.000 íbúa sveitarfélagi suður af Ósló, sem af óþekktum ástæðum skartar svo veglegum fíkniefnamarkaði að Freddy segir sölumenn nánast orðna fleiri en neytendur en í ágúst í fyrra sagði Joachim Larsen, íbúi þar í bænum, Morgunblaðinu og mbl.is harmsögu ævi sinnar, MS-sjúklingur sem varð heróíni að bráð.
„Pabbi var mikill ofbeldismaður, hann lamdi okkur bræðurna í klessu frá því við vorum þriggja og fjögurra ára. Einu sinni kom hann heim úr vinnunni í öryggisskóm með stáltá og sparkaði í andlitið á mér. Ég var svo bólginn að hausinn á mér var nánast tvöfaldur,“ segir Freddy frá, „og svo kom sá dagur að mamma fór bara,“ rifjar hann upp og lyftir hægri framhandlegg sem skartar umbúðum eftir að hann var skotinn í síðustu viku.
Þar ætlaði hópur keppinauta sér að ræna hann heróíni og peningum en Freddy komst naumlega undan. Það er langt í frá eina skiptið sem hann hefur komist í hann krappann, félagar í sómalskri klíku stungu hann í hjartastað í átökum og skildu þar millimetrar milli feigs og ófeigs að sögn lækna.
„Ástandið á heimilinu var bara ömurlegt,“ segir Freddy, sem er fæddur árið 1992, „ég gerði bara mitt besta til að passa upp á litla bróður minn. Engin leið var að vita um skapsmuni pabba, oft var hann bara rólegur en þess á milli trylltist hann bara og þurfti ekkert til. Ég fékk nánast enga skólagöngu heldur, var í barnaskóla í Horten [skammt frá Tønsberg] og Buskerud og var að lokum rekinn um haustið í níunda bekk fyrir slagsmál. Heima beið ekkert nema ofbeldi og drykkja og ekki skánaði það þegar mamma hélt fram hjá pabba í þvottahúsinu í blokkinni sem við bjuggum í og hann komst að því,“ segir Freddy og lítur brúnum augum sínum, sem dylja ekki ítalskan uppruna hans, í augu blaðamanns.
„Ég á bara engar góðar minningar frá þessum tíma,“ játar Freddy sem bjó á hvorki meira né minna en átta upptökuheimilum eftir að barnaverndaryfirvöld Noregs úrskurðuðu foreldra hans óhæfa til að fara með forsjá barna. „Ég vissi aldrei hvað ég átti í vændum þegar ég vaknaði á morgnana, er það lífið sem barn á að lifa?“ spyr Freddy og blaðamaður á engin svör.
„Ég byrjaði að nota fíkniefni ellefu ára gamall á einu af þessum upptökuheimilum, það var bara eina lausnin til að losna við sársaukann. Þarna var hægt að komast í flest efni. Stjórnendurnir þarna notuðu allt sem þeir gátu gegn þér. Maður fékk tíma hjá sálfræðingi einu sinni í viku sem brosti framan í mann og lofaði öllu fögru en svo gerðist ekki neitt, kerfið hérna í Noregi er viðbjóður,“ segir Freddy.
„Þeir hlógu upp í opið geðið á mér og sögðu bara „hvað ætlarðu að gera, þú ert barn, þú getur ekki farið á NAV [Vinnumálastofnun Noregs], þú getur ekki kært okkur, enginn mun trúa þér, þú skalt bara vera hér og halda kjafti,“,“ segir hann af samskiptum sínum við norsk barnaverndaryfirvöld sem eru raunar þeirrar náttúru, og það veit sá sem hér skrifar eftir samtöl við aðra, að fjöldi fólks hefur flúið Noreg vegna ágangs þeirra.
„Svo endaði ég bara á götunni. Ég var í neyslu, ég var á götunni og mér fannst ömurlegt að vera alltaf að spyrja kunningja mína hvort ég mætti sofa á sófanum þeirra, rétt einu sinni. Þetta er ekkert líf,“ segir Freddy og meinar augljóslega það sem hann segir.
En hvernig kom það til að þú fórst að selja heróín?
„Það var auðvitað mér að kenna en tengdist líka því að ég byrjaði með T..., hún var þá að selja heróín en varð síðar stærsti amfetamínsalinn í Tønsberg. Í gegnum hana kynntist ég F... sem rak þá bar hérna sem var bara peningaþvottastöð fyrir amfetamín- og heróínpeninga, þessi markaður er stærri hérna en maður getur ímyndað sér,“ svarar Freddy.
„Markaðurinn hérna í Tønsberg er núna orðinn svo stór að hér eru næstum fleiri sölumenn en neytendur, hér eru allir að selja, sjáðu bara torgið [hjá verslunarmiðstöðinni Farmannsstredet], þar vantar stundum hass en allir sem eru að nota pillur, amfetamín eða heróin fá sín efni strax,“ segir hann.
Blaðamaður spyr Freddy út í eigin neyslu.
„Ég notaði fyrst amfetamín í tíu ár en það verður svo þreytandi. Maður er alltaf vakandi, amfetamín er algjör viðbjóður. Svo byrjaði ég í sambandi þar sem heróín var bara ekkert mál, ég fékk bara tilbúna sprautu nánast í rúmið á morgnana, segir maður þá nei?“ spyr Freddy og glottir við tönn þar sem þó er ekki um auðugan garð að gresja, í tanngarði þessa unga manns má segja að skarð sé fyrir skildi.
„Enginn getur ímyndað sér hve slæmt er að verða háður heróíni, það er algjör viðbjóður. Þér líður eins og þú sért alltaf veikur, þú gubbar í tíma og ótíma, þú skítur í buxurnar og liggur bara skjálfandi uppi í rúmi þegar þú átt ekki efni. Þetta er ekki líf sem ég get óskað neinum og þú þarft alltaf meira og meira, þetta er bara helvíti,“ segir Freddy sem sprautar sig ekki lengur en reykir fimm grömm af heróíni á dag.
En nú selur þú töluvert samhliða neyslu þinni.
„Já, við T... seldum mesta heróínið af öllum hér í bænum lengi og ég sel núna líklega mest eftir að við hættum samstarfinu. Svo reynirðu að hætta þessu og þá þarftu meþadón til að venja þig af því og opinbera kerfið hér í Noregi hefur engan skilning á því. Það er bara litið á þig sem aumingja. Fólkið, til dæmis í NAV, er kurteist á yfirborðinu en ég veit alveg hvað það hugsar um mig, ég er bara helvítis fíkill og aumingi, það er það sem ég er opinberlega í Noregi,“ segir Freddy og horfir í gaupnir sér.
Í sjö ár átti hann sér ekki heimilsfang í Noregi, var nánast ekki til í kerfinu. Svo lenti hann í fangelsi fyrir sölu á pillum, Xanax, Díasepam og fleiru, og eins sorglega og það hljómar ef til vill kynntist hann sínum bestu vinum í fangelsinu. Þar var innsti koppur í búri einn æðsti yfirmaður Outlaws-vélhjólasamtakanna í Ósló.
„Hann tók mig upp á sína arma, ég var rústir einar þegar ég kom inn í fangelsið. Ég get ekki borðað, ég hafði enga matarlyst, ég hafði ekki borðað í marga mánuði nema eitthvert rusl. Hann fór að láta mig lyfta og hreyfa mig aðeins og gaf mér trú á lífið aftur, það þótti mér ótrúlega vænt um. Svo slapp ég út úr fangelsi og þá var ég bara kominn í Outlaws, eða alla vega fljótlega. Þú færð ekki vestið með merkjunum strax, fyrst þarftu að vera hóran þeirra, skúra klúbbhúsið, hella upp á kaffi og gera allt sem þeir segja þér. Þetta er ekkert sældarlíf að komast inn í þessa klúbba og svo er samkeppnin við Hells Angels, Bandidos og Satudarah endalaust stríð,“ segir Freddy alvörugefinn.
Hann segir gríðarmikla skálmöld í vændum milli stóru vélhjólaklúbbanna í Skandinavíu þar sem barist verði um yfirráðin á fíkniefnamarkaðnum. „HA [Hells Angels] eru langstærstir og hafa alltaf verið en Satudarah [hollensk-pakistönsk vélhjólasamtök þar sem næstum enginn ekur þó um á vélhjóli samkvæmt nýlegri samantekt norska ríkisútvarpsins NRK] eru stórhættuleg samtök, þeir fara bara út á götu og skjóta þá sem þeir vilja,“ segir Freddy og nýlegur fréttaflutningur mbl.is og NRK styður þá fullyrðingu vissulega.
Hann segir Rúmena og Afríkubúa, einkum Sómala og Nígeríumenn, nú stjórna fíkniefnamarkaðnum í Ósló þegar sterkari efni eru til umræðu, það sé af sem áður var þegar Albanar fylltu Noreg af heróíni og sköpuðu eina stærstu stétt heróínfíkla í Evrópu á níunda áratugnum.
„Fólk er að deyja úr ofskömmtun á svæðum sem lögreglan í Ósló vogar sér ekki inn á lengur,“ segir Freddy og nefnir svo enn ískyggilegri staðreynd. „Sölumenn, sem eru líka að fá sér, fá lánað meira og meira. Þegar þú ert farinn að skulda meira en 100.000 kall [tæpar 1,3 milljónir íslenskra króna], þar liggja mörkin um það bil, þá ertu bara drepinn, það er þumalputtareglan,“ segir Freddy og lítur brúnaþungur í augu blaðamanns heima í stofu þess síðarnefnda.
Þegar skuldin er komin í þessar hæðir er ekkert sem heitir fyrirgefum vorum skuldunautum svo sem faðirvorið býður. „Þú ert ekki skotinn eða laminn lengur, þeir taka þig bara og sprauta þig með of stórum skammti,“ segir Freddy. „Manstu eftir V..., sem var oft með mér í fyrra, hann hvarf bara,“ heldur hann áfram og blaðamaður man glöggt eftir V..., huggulegum ungum manni sem fékk lánað meira heróín en hann var borgunarmaður fyrir.
„Löggan nennir ekkert að rannsaka það, hún hugsar bara að nú sé einum fíklinum færra, allir halda bara að viðkomandi hafi sprautað sig með aðeins of miklu, en svona er fólk drepið hérna í Noregi, líka hérna í Tønsberg,“ segir Freddy og hækkar róminn í fyrsta sinn í þessu viðtali enda þekktur að jafnaðargeði þrátt fyrir stormasama æsku sína.
Hvað með Bård Lanes sem var skotinn til bana hér í Tønsberg í apríl 2021, var hann uppljóstrari lögreglunnar eins og gekk fjöllunum hærra?
Freddy hugsar sig um stundarkorn. „Hann var kannski eitthvað að tala við lögguna, eða það héldu menn. Ég er ekki viss um það sjálfur. L... [sem fyrir helgi hlaut 18 ára dóm fyrir að skipa fyrir um víg Lanes] var skíthræddur við Bård. Hann var viss um að hann væri að tala við lögguna og fékk bara panik-kast. Ég er ekki viss um að það hafi verið tilfellið,“ segir heróínsalinn og hugsar sig um.
„Sko, ég get sagt þér eitt, Bård var bara partýdópisti, hann var aðallega að æfa box, þetta var yndislegur strákur,“ segir Freddy og brúnu ítölsku augun leiftra um stund, „en Bård var orðinn skíthræddur undir það síðasta, þeir kveiktu í bílnum hans og honum var hótað. L... vissi alveg að hann var búinn að vera að tala við lögguna,“ segir Freddy alvörugefinn og nefnir því næst til sögunnar annan þekktan fíkniefnasala í Tønsberg, E...
„L...óttaðist hann [Bård Lanes] og E... er bara hlaupatíkin hans L..., ég held að það sé tómt rugl að Bård hafi verið að kjafta í lögguna, hann hafði enga ástæðu til þess. Ég man þegar ég frétti að Bård hefði verið skotinn þarna á bílastæðinu, þá vissi ég um leið að L...hefði staðið á bak við það. Bård var hvers manns hugljúfi, L... sturtaði lífi sínu niður með því að láta drepa Bård. Hann [L...] var nýkominn með konu og barn, mamma hans er frægur tannlæknir hérna. Þessi drengur fékk allt. Nú verður hann í fangelsi nánast allt sitt líf,“ segir Freddy og hristir höfuðið, maður sem þó er ekki hneykslunargjarn, hefur enda varla efni á því.
„Ég veit þó alveg, eða er nokkuð viss um, að E... var kveikjan að þessu manndrápi, ég seldi hass fyrir hann í gamla daga og hann er miskunnarlaus skepna. Hann segir bara við þig strax í byrjun að ef þú skilar ekki af þér þá drepi hann þig. E... er vöðvarnir, L... er heilinn, en L... vill vera aðaltöffarinn, en hann er það bara ekki. E... er tveir metrar á hæð og breiðari en fjandinn og allir eru skíthræddir við hann hérna. Hann er ekki með fólk í kringum sig, hann drepur þig sjálfur, og hann segir aldrei orð, hann hótar bara,“ segir Freddy og veit hvað hann talar um, fyrrverandi umboðsmaður E...
„Við erum að fá hingað nýja kynslóð skíthæla, fólk sem ætlar að taka yfir fíkniefnamarkaðinn í Noregi. Heróínmarkaðurinn bara hér í Tønsberg er risastór og þetta sjá erlendir fíkniefnasalar. Pillur hafa líka orðið stór markaður hér eftir að Rúmenarnir fóru að flytja þær inn en þær eru ekki allar innfluttar. Þeir eru að búa þetta til í eldhúsinu hjá sér, pressa saman pillur úr alls konar drasli, til dæmis bláar valíum sem svo heita. Enginn veit hvað þetta er, það er engin áletrun á þeim og ekkert deilistrik, enginn veit hvað þetta er. Fjöldi fólks á eftir að deyja,“ segir Freddy og endar ræðu sína á dómsdagsspá skandinavískra vélhjólagengja.
„Hér verður stríð á milli Hells Angels, Outlaws, Bandidos og Satudarah. Enginn er að fara að gefa eftir sinn markað, síst Hells Angels sem hafa stjórnað skandinavíska markaðnum í 30 ár. Menn eru að safna vopnum, heldurðu að HA séu að fara að gefa sitt gamla veldi eftir?“ spyr Freddy og lítur í augu blaðamanns sem svarar að vandi sé um slíkt að spá.
„Nei, þeir eru stórveldi hérna, Outlaws eru bara eins og Hjálpræðisherinn við hliðina á HA en Bandidos og Satudarah eiga eftir að verða stór samtök hérna og Satudarah munu einskis svífast, þeir ætla sér að taka markaðinn af Hells Angels. Hér verður barist á næstunni, allur fíkniefnamarkaður Skandinavíu er undir, jafnvel líka hjá ykkur á Íslandi,“ segir Freddy að lokum í viðtali sem hann féllst á að taka á heimili blaðamanns og tók rúmt ár í undirbúningi enda ekki áhlaupaverk að fá helstu markaðsmenn undirheimanna til að leggja spil sín á borðið.