Sex ungmenni voru handtekin vegna óeirða í svissnesku borginni Lausanne í nótt, sem lögregla segir vera innblásin af óeirðunum í Frakklandi.
Lögreglan í Sviss greindi frá því í dag að meira en hundrað ungmenni hefðu framið skemmdarverk í verslunum í miðborginni.
Auk ungmennanna var fullorðinn maður einnig handtekinn.
Þótt óeirðirnar séu hvergi nærri ástandsins í Frakklandi var grjóti kastað og rúður brotnar í verslunum í Lausanne, sem er í frönskumælandi hluta Sviss.
„Til að líkja eftir atburðunum og óeirðunum sem geisa í Frakklandi söfnuðust meira en hundrað ungmenni saman í miðborg Lausanne og frömdu skemmdarverk í fyrirtækjum,“ sagði lögreglan í yfirlýsingu.
Boðað hafi verið til mótmælanna á samfélagsmiðlum. Um 50 lögreglumenn voru sendir á vettvang og enginn slasaðist. Lögreglurannsókn er hafin.
Þrjár stúlkur á aldrinum 15 til 16 ára voru handteknar auk þriggja drengja á aldrinum 15 til 17 ára.