Um ein milljón evra, eða tæplega 150 milljónir króna, hefur safnast fyrir franska lögregluþjóninn sem skaut unglinginn Nahel M. til bana á þriðjudag.
Tæplega 40 þúsund manns hafa lagt söfnuninni lið sem var sett upp á Gofundme.com.
Um 189 þúsund evrur, eða um 28 milljónir króna, hafa safnast fyrir fjölskyldu hins 17 ára gamla Nahel M. sem var af alsírskum uppruna.
Amma Nahels M. sagðist vera „harmi slegin“ yfir stuðningnum sem almenningur hefur sýnt lögreglumanninum.
„Hann tók líf barnabarns míns. Hann verður að gjalda fyrir það, líkt og aðrir,“ sagði konan við franska fjölmiðilinn BFM í gær.
„Ég hef trú á réttarkerfinu. Ég trúi á réttlæti.“
Jean Messiha hóf söfnunina fyrir lögregluþjóninn en Messhia er þekktur fyrir öfgahægristefnu. Nokkrir þingmenn frá mið- og vinstri flokkum Frakklands hafa gagnrýnt söfnunina.
„Jean Messiha leikur sér að eldinum,“ tísti Eric Bothorel, flokksbróðir Emmanuel Macron forseta.
Lögreglumaðurinn, sem hefur verið nefndur sem Florian M., hefur verið handtekinn og ákærður fyrir manndráp af gáleysi.