Átök milli lögreglu og óeirðarseggja í Frakklandi voru minni í nótt en oft áður. Átta dagar eru nú liðnir síðan að franska lögreglan skaut unglinginn Nahel Merzouk til bana við almennt umferðareftirlit. Óeirðirnar sem fylgt hafa í kjölfarið eru þær verstu í Frakklandi í langan tíma.
Um 45 þúsund lögreglumenn voru á götum Frakklands sem viðbragð við óeirðunum, samkvæmt upplýsingum franska innanríkisráðuneytisins.
Einungis 16 voru handtekin í nótt, en til samanburðar má geta þess að um helgina voru 1.300 handtökur eina nóttina.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í gær að hann teldi hámarki óeirðanna hafi verið náð, en sagðist jafnframt vera varkár í því mati sínu.