Þrír eru látnir eftir eldflaugaárás á fjölbýlishús í borginni Lvív í vesturhluta Úkraínu, og að minnsta kosti átta eru særðir.
„Þrír eru látnir nú þegar,“ skrifaði Andrí Sadoví, borgarstjóri Lvív, á Telegram.
Viðbragðsaðilar eru á vettvangi og er búið að slökkva eldinn sem kviknaði. Enn er verið að leita að fórnarlömbum í rústum byggingarinnar en búið er að bjarga tveimur. Talið er að um 60 íbúðir hafi orðið fyrir skemmdum í árásinni og um 50 bílar.
Lvív er í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð frá átökunum í austurhluta landsins og hefur lítið verið um árásir á borgina frá því að innrás Rússa hófst í febrúar á síðasta ári.