Rússneskir fjölmiðlar snúast gegn Prígosjín

Haldið er fram að ríkidæmi Prígosjíns varpi mjög slæmu ljósi …
Haldið er fram að ríkidæmi Prígosjíns varpi mjög slæmu ljósi á hann. AFP

Eftir mislukkaða uppreisn Jev­gení Prígosjín í lok síðasta mánaðar hafa rússneskir fjölmiðlar snúist gegn yfirmanni málaliðahópsins Wagner.

Helstu sjónvarpsstöðvar hafa birt myndefni sem fengið var við húsleit á heimili Prígosjín utan við Pétursborg. Er því haldið fram að ríkidæmi hans varpi mjög slæmu ljósi á Prígosjín.

Gráðugur glæpamaður

Rússneskar sjónvarpsstöðvar rifja nú duglega upp glæpaferil hans og að græðgin ein hafa verið helsti hvati hans. Minna fer þó fyrir því að minnast á þá gagnrýni sem Prígosjín beindi að yfirmönnum hermála í Rússlandi.

Mun þetta vera í fyrsta skipti sem fjölmiðlar í Rússlandi veita Prígosjín svo mikla athygli. Þykir umfjöllunin vera mjög persónuleg og ætlað að draga fram vandræðalega hluti úr fortíð hans. Hingað til hefur umfjöllun um Prígosjín verið frekar jákvæði í rússneskum fjölmiðlum enda barðist hann við hlið rússneska innrásarliðsins í Úkraínu.

Hárkollur og vopn

Myndatökumenn fóru inn á heimili Prígosjín og sýndu eitt og annað, þar á meðal ríkulegan húsbúnað, stafla af reiðufé, hvers kyns vopn og þyrlu í stæði. Eins átti Prígosjín gott safn af hárkollum og úrval falsaðra vegabréfa sem Prígosjín gæti notað undir ólíkum nöfnum.

Fréttamanni í myndskeiðinu þótti þetta hjákátlegt í ljósi þess hve ötull Prígosjín hefur verið í því að saka aðra um spillingu og þjófnað.

Illræmd sleggja

Í myndskeiðunum má líka sjá sleggju á heimili Prígosjín með áletruninni „Notist í mikilvægum samningaviðræðum.“ Sleggjan hefur eflaust vísun í hrottalega aftöku á einum liðsmanni Wagner-hópsins árið 2022, sem sakaður var um svik við hópinn.

Sleggjan illræmda af heimili Prígosjín í Pétursborg.
Sleggjan illræmda af heimili Prígosjín í Pétursborg. Mynd BBC/Izvestia

Samkvæmt frétt BBC má hér greina algeran viðsnúning í afstöðu rússneskra stjórnvalda og þeirra fjölmiðla sem þau stjórna. Prígosjín sjálfur hefur verið að mestu hljóður á samfélagsmiðlum eftir uppreisn sína og hefur ekkert tjáð sig um ofangreinda umfjöllun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka