Bandaríkjamenn senda klasasprengjur til Úkraínu

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, hefur varið ákvörðun um að senda …
Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, hefur varið ákvörðun um að senda klasasprengjur til Úkraínu. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt það hafa verið ákaflega erfiða ákvörðun að afhenda Úkraínumönnum klasasprengjur. Mörg dæmi eru um það í hernaði að almennir borgarar verði fyrir barðinu á þeim vopnum.

Biden segist hafa sannfærst um að þetta væri rétt ákvörðun í ljósi þess að gengið hefur mjög á vopnabúr Úkraínumanna. Selenskí, Úkraínuforseti, hefur fagnað ákvörðuninni. Biden hefur hins vegar verið gagnrýndur fyrir ákvörðunina af mannréttindasamtökum og úr röðum eigin flokksmanna heima fyrir.

Bandaríkjaforseti segist hafa rætt þessa ákvörðun sína við bandamenn í Atlantshafsbandalaginu en leiðtogafundur þess fer fram í Litáen í næstu viku. Bæði Rússar og Úkraínumenn hafa notað klasasprengjur í átökunum, þótt þær séu á bannlista hjá 120 ríkjum.

Þjóðaröryggisráðgjafi ver ákvörðun

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, sagði við blaðamenn að ákvörðun um vopnasendinguna hafi dregist mjög. Það væri ekki síst vegna þess skaða sem almennum borgurum geti stafið af ósprengdum klasasprengjum.

Hér er vísað í algengan vanda þessara vopna, þær springa ekki alltaf eins og til var ætlast en grafast þess í stað í jörðu. Þar geta þær verið í mörg ár og sprungið án nokkurs fyrirvara.

Jake Sullivan segir þær sprengjur sem Bandaríkjamenn hafi til umráða séu mun fullkomnari en þær sem Rússar notist við. Hann segir að þær springi ekki í 2,5% tilfella en til samanburðar gerist það í 30-40% tilfella hjá Rússum.

NATO tekur ekki afstöðu

Engin bandalagsþjóða NATO hefur mótmælt þessari ákvörðun Bandaríkjamanna. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir bandalagið ekki taka neina afstöðu til klasasprengja.

Flest bandalagsríkin taka þátt í banni gegn klasasprengjum, en hvorki Bandaríkin, Úkraína né Rússland eru aðilar að því, að því er kemur fram í frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert