Biðst lausnar hjá konungi

Vilhjálmur Alexander Hollandskonungur var kallaður heim úr fríi til að …
Vilhjálmur Alexander Hollandskonungur var kallaður heim úr fríi til að taka við afsögn forsætisráðherra. AFP/Remko de Waal

Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands, mun biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína hjá konungi í dag. Ríkisstjórnin sprakk vegna ágreinings í innflytjendamálum og boða þarf til kosninga síðar á árinu.

Vilhjálmur Alexander, Hollandskonungur, var utan landsteinanna þegar ríkisstjórnin sprakk. Þurfti hann að fljúga heim úr fríi til að taka við afsögn forsætisráðherra.

Enginn í sögu Hollands hefur setið jafn lengi í sæti forsætisráðherra eins og Mark Rutte, en hann hefur setið að völdum síðan 2010.

Illa gekk að mynda fráfarandi stjórn

Vænst er að Rutte muni fara fyrir bráðabirgðaríkisstjórn þar til boðað verður til nýrra kosninga um miðjan nóvember. Rutte fór fyrir fjögurra flokka stjórn sem sprakk á tilögum hans um að herða enn reglur um sameiningu fjölskylda flóttafólks. Kemur það mál í kjölfar deilna í fyrra um yfirfullar móttökustöðvar flóttafólks í Hollandi.

Ekki reyndist þrautarlaust að mynda þá ríkisstjórn sem nú er að falla, því það tók flokkana heila 271 daga að koma henni saman. Hún tók formlega við völdum í janúar 2022. Þótti þar felast vísbending um örlög ríkisstjórnarinnar sem nú er að raungerast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert