Sýrland snýst gegn Wagner

Bandamennirnir Bashar al-Assad og Vla­dimír Pútín.
Bandamennirnir Bashar al-Assad og Vla­dimír Pútín. AFP/Alexey Druzhinin

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa snúist snögglega gegn Wagner-málaliðahópnum eftir misheppnaða uppreisn hans heima í Rússlandi.

Stjórnvöld ásamt liðsmönnum rússneska hersins í Sýrlandi hafa krafið Wagner-liða á svæðinu til þess að undirrita samning við rússneska varnarmálaráðuneytið eða yfirgefa Sýrland ella. Er þetta gert til þess að uppreisn Wagner-liða breiðist ekki út til Sýrlands.

Wagner hefur gegnt mikilvægu hlutverki

Stjórnvöld í Damaskus létu ekkert hafa eftir sér á meðan uppreisninni stóð í síðasta mánuði. Er vitað að menn í her og leyniþjónustu Sýrlands höfðu áhyggjur af því að áhrifa uppreisnarinnar myndi gæta í liði rússneskra hermanna í Sýrlandi. Herstuðningur Rússa hefur skipt sköpum í því að Bashar al-Assad situr enn á forsetastóli í Sýrlandi.

Rússlandsher hefur tekið þátt í hernaði í Sýrlandi allt frá árinu 2015 og hefur flugher Rússa gegnt mikilvægu hlutverki í því að berja á uppreisnarmönnum. Wagner málaliðahópurinn hefur verið í landinu í svipaðan tíma og hefur einkum annast öryggismál í kringum olíuiðnað landsins.

Málaliðarnir einangraðir

Vitað er að Rússar sendu hátt setta hermenn til Sýrlands strax eftir uppreisnina í Rússlandi. Var þeim ætlað að ná stjórn á Wagner-liðum í Sýrlandi. Var þess gætt að málaliðarnir gætu ekki ráðfært sig innbyrðis, til dæmis með því að skera á símalínur og með því að hindra önnur fjarskipti. Jafnvel var þess gætt að málaliðarnir gætu ekki talað við ástvini heima.

Í þessum aðgerðum Rússlandshers var þess gætt að þeir málaliðar sem ekki sættu sig við þessa nýju skipan mála væri flogið heim í Ilyushin vélum hersins. Nokkrir tugir málaliða völdu þann kost, sem kom sýrlenskum embættismönnum á óvart, þar sem þeir gerðu ráð fyrir því að fleiri myndu neita afarkostunum og fara í útlegð, að því er segir í frétt Al Jazeera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert