Joe Biden Bandaríkjaforseti lenti fyrr í kvöld á Standsted flugvelli fyrir utan London í Bretlandi. Mun hann funda með Karl lll. Bretakonungi og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, á morgun.
Biden mun funda með konungnum í Windsor kastala, en þetta verður í fyrsta sinn sem hann hittir nýkringda konunginn. Umræðuefni fundarins eru umhverfismál að sögn bandarískra stjórnvalda.
Eftir þann fund mun hann svo halda á fund með Sunak. Ekki þykir ólíklegt að þeir tveir muni ræða ákvörðun bandarískra stjórnvalda að senda Úkraínumönnum klasasprengjur. Sunak hefur nýlega áréttað að Bretland hafi skrifað undir bann gegn umræddu vopni og hvatti um leið aðrar þjóðir til að skrifa undir bannið og láta af notkun þeirra.
Tilefni Evrópuferðar forsetans er ráðstefna Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem hefst á þriðjudaginn og verður í Vilníus í Litháen. Til umræðu þar verður vafalaust innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og stuðningur við Úkraínu. Biden sagði nýlega að hann styddi ekki aðild Úkraínu að NATO að svo stöddu.
Á fundinum er einnig gert ráð fyrir því að þjóðarleiðtogar hvetji Tyrkland til þess að samþykkja aðild Svíþjóðar að NATO.
Munu Biden og Recep Erdogan, forseti Tyrklands, funda saman sérstaklega til að ræða mögulega aðild Svíþjóðar að NATO, stöðu Úkraínu og fleira.