Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur árétt að Bretland sé eitt þeirra fjölda ríkja sem skrifað hefur undir bann á þessum tilteknu vopnum og að Bretar hvetji aðrar þjóðir að láta af notkun þeirra.
Kanadamenn gengu enn lengra og í tilkynningu frá ríkisstjórn þeirra kom fram að stjórnvöld þar hefðu einsett sér að koma í veg fyrir þau hryllilegu áhrif sem þessi vopn hafa á almenna borgara, ekki síst á börn.
Spánverjar sögðu fullum fetum að ekki hefði átt að senda Úkraínumönnum klasasprengjur. Þjóðverjar segjast einnig andvígir ákvörðuninni en segjast þó skilja ástæðurnar sem þar liggja að baki.
Rússar sögðust andvígir ákvörðuninni, þrátt fyrir að hafa sjálfir ítrekað notað klasasprengjur í hernaði sínum gegn Úkraínu. Segja Rússar að sprengjurnar muni menga heilu landssvæðin til langframa.
Klasasprengjur þykja sérstaklega illvíg vopn og ekki mjög nákvæm. Þær eru í raun stórar sprengjur sem í framhaldinu dreifa frá sér öðrum minni sprengjum sem geta drepið allt sem á vegi verður.
Eins þykir það vont við þessi vopn að þau springa ekki alltaf þegar þeim er sleppt, heldur geta grafist í jörðu. Þá geta þau valdið ómældum skaða þegar þau verða á vegi grandvaralausra árum eða áratugum síðar, að því er kemur fram í frétt BBC.