Lyfjastofnun Evrópu athugar nú möguleg tengsl milli þyngdarstjórnunarlyfja og sjálfsvígs- og sjálfsskaðahugsana eftir ábendingu frá Lyfjastofnun Íslands.
BBC greinir frá því að þrjú tilfelli hafi komið upp hérlendis en í síðustu viku var greint frá yfirvofandi skort á sykursýkislyfinu Ozempic sem er á meðal þeirra lyfja sem notuð hafa verið til að vinna gegn offitu.
Eftirlitsnefnd Lyfjastofnunar Evrópu mun, á samt Ozempic, meðal annars skoða lyfin Wegovy og Saxenda.
Sjálfsvígshugsanir eru nú þegar nefnd sem mögulegar aukaverkanir lyfjanna, en ekki sjálfsvíghegðun.
Tvö tilfelli komu upp hér á landi þar sem einstaklingar glímdu við sjálfvígshugsanir. Annar hafði tekið Saxenda og hinn Ozempic.
Í þriðja tilfellinu hafði einstaklingurinn tekið Saxenda og upplifað sjálfsskaðahugsanir.
Til að byrja með verða einungis lyf sem innihalda semaglutide og liraglutide til athugunar.
Ef þú ert að upplifa sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.