Fjölskylda ungmennisins sem barst greiðslur fyrir kynferðislegt myndefni frá sjónvarpsmanni BBC er ósátt við viðbrögð breska ríkisútvarpsins.
Í yfirlýsingu sem BBC gaf út í gær kom fram að stofnunin hefði fyrst heyrt af málinu í maí og síðan af „nýju ásökununum“ á fimmtudag. Götumiðillinn The Sun birti viðtal við móður ungmennisins á föstudag.
Myndefnið barst sjónvarpsmanninum yfir þriggja ára tímabil og hófst er unglingurinn var 17 ára.
BBC greindi frá því í yfirlýsingunni að sjónvarpsmaðurinn hefði verið sendur í leyfi. Maðurinn er vel þekktur, en hefur enn ekki verið nafngreindur.
Fjölskyldan greinir nú frá því að enginn frá BBC hafi boðað þau í „almennilegt viðtal eftir fyrstu kvörtunina“.
Í yfirlýsingu BBC sagði að stofnunin hefði sett sér skýra verkferla í aðstæðum sem þessum og muni bregðast við nýjum upplýsingum jafnóðum og þær berist. Atburðarásin hafi verið hröð og málið sé flókið.
Alex Chalk dómsmálaráðherra gagnrýndi BBC og sagði að stofnunin þyrfti „að taka til heima hjá sér“ til þess að rannsaka ásakanirnar fljótt og vel til þess að koma í veg fyrir að smána orðspor saklauss fólks.
Suella Braverman innanríkisráðherra sagði að „skjót viðbrögð“ væru nauðsynleg.
Nokkur þekkt nöfn hafa komið fram á samfélagsmiðlum síðustu daga þar sem þeir neita að ásakarnar eigi við um þá. Þar á meðal er Rylan Clark, Gary Lineker, Nicky Campbell, Jeremy Vine og Jon Kay.
BBC fundar með lögreglunni í dag um málið.