Styður aðild Svía að NATO gegn einu skilyrði

Recep Tayyip Erdogan segist geta samþykkt aðild Svía að NATO …
Recep Tayyip Erdogan segist geta samþykkt aðild Svía að NATO ef Tyrkland fær að taka upp þráðinn í aðildarviðræðum að ESB. AFP/Ozan Kose

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segist geta samþykkt aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) gegn því að viðræður um aðild Tyrklands að Evrópusambandinu (ESB) verði teknar upp að nýju. 

Þetta tjáði hann fjölmiðlum áður en hann hélt til Vilníus í Litháen á fund NATO. Hann sagði að þetta hefði hann sagt Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, þegar þeir töluðu saman í síma í gær, sunnudag. 

Viðræður NATO og Svíþjóðar hafa staðið yfir síðan á síðasta ári en Erdogan hefur helst staðið í vegi fyrir því að Svíþjóð hljóti inngöngu.

50 ár á dyraþrepinu

Aðildarviðræður Tyrklands í ESB hafa legið niðri síðan árið 2016, en þær hófust árið 2005. Evrópuþingið sleit viðræðunum vegna áhyggja af mannréttindabrotum sem framin eru í Tyrklandi. 

„Ég vil leggja áherslu á eitt. Tyrkland hefur staðið við útidyrahurðina hjá ESB í hálfa öld. Flest NATO-ríki eru ESB-ríki. Núna vil ég ræða við þessi ríki sem hafa látið Tyrkland bíða í meira en 50 ár, og ég mun tala við þau í Vilníus,“ sagði Erdogan.

Erdogan mun funda með Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, eftir hádegi í dag en fundur NATO hefst á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert