Efla landamæravarnir við Hvíta-Rússland

Marga kílómetra má finna af háum málmgirðingum, hitamyndavélum og ljóskösturum …
Marga kílómetra má finna af háum málmgirðingum, hitamyndavélum og ljóskösturum á landamærunum. AFP/Wojtek Radwanski

Stjórn Póllands hefur eflt varnir við landamærin að Hvíta-Rússlandi vegna viðveru Wagner-liða í land­inu.

BBC greinir frá því að áður fyrr voru landamæravarnir Póllands ekki upp á marga fiska en nú má finna marga kílómetra af háum málmgirðingum, hitamyndavélum og ljóskösturum. 

Byrjað var að reisa varnirnar fyrir tveimur árum eftir að hvítrússnesk stjórnvöld hvöttu innflytjendur til að flýja yfir landamærin til Póllands. 

Sýrlenskir og íraskir flóttamenn á landamærunum.
Sýrlenskir og íraskir flóttamenn á landamærunum. AFP/Wojtek Radwanski

Í dag hefst ráðstefna Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO) í Viln­íus í Lit­há­en og því hafa pólsk yfirvöld sent hundruð landamæraverði til viðbótar á landamæri landsins við Hvíta-Rússland. 

„Mesta ógnin er nágranni okkar Hvíta-Rússland. Ríkið er algjörlega óútreiknanlegt,“ sagði Michal Bura landamæravörður við blaðamann BBC. 

„Við þurfum að vera undirbúnir fyrir hvers kyns þróun. Kannski verður Wagner vandamál, en enginn veit í raun og veru af hverju þeir eru að fara þangað og hvað þeir eru að undirbúa sig fyrir.“

Pólskur landamæravörður.
Pólskur landamæravörður. AFP/Wojtek Radwanski

Tómt tjald í Minsk 

Meira en tvær vikur eru síðan Jev­gení Prigó­sjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, stóð að mis­heppnaðri upp­reisn gegn rúss­nesk­um stjórn­völd­um. Alexander Lúka­sj­en­kó, for­seti Hvíta-Rúss­lands, hafði milli­göngu um sam­komu­lag til að binda enda á aðgerðirnar. Samkomulagið fólst meðal annars í því að Prigó­sjín og menn hans fengju skjól í Hvíta-Rússlandi. 

Á fimmtudag greindi Alexander Lúka­sj­en­kó, for­seti Hvíta-Rúss­lands, að Prigó­sjín og sveitir hans væru hins vegar í Pétursborg í Rússlandi. 

Í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, má finna stórt hvítt tjald, líklega fyrir Wagner-liða, en tjaldið er tómt og ekki hafa sést neinir málaliðar.

Enn starfandi í Rússlandi

BBC greinir frá því að þess í stað séu Wagner-liðar enn starfandi í Rússlandi.

Blaðamaður BBC hafði samband við Wagner um helgina og var honum tjáð að sveitirnar væru enn að taka við nýjum liðsmönnum.

Wagner-liðar í Rostov við Don.
Wagner-liðar í Rostov við Don. AFP/Roman Romokhov

Blaðamanninum barst nánar upplýsingar um hvar hann gæti fundið æfingabúðir málaliðanna í Krasnodar í Suður-Rússlandi, þar sem þær hafa lengi verið. 

Blaðamanninum var sagt að koma með sandala fyrir sturturnar og nærföt, þá skyldi hann vera heilsuhraustur og ekki glíma við eiturlyfjafíkn. 

Er hann spurði hvort hann yrði sendur til Úkraínu hættu svör að berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert