Fleiri ásakanir á hendur sjónvarpsmanni BBC

Nýjar ásakanir eru komnar fram gegn sjónvarpsmanni BBC.
Nýjar ásakanir eru komnar fram gegn sjónvarpsmanni BBC. AFP/Henry Nicholls

Annað ungmenni hefur stigið fram og tilkynnt fréttastofu BBC um ósæmilega hegðun sjónvarpsmanns sem þar hefur starfað.

Hann var sendur í launalaust leyfi nýverið vegna ásakana um að hafa greitt háar fjárhæðir fyrir kynferðislegar myndir af ungmenni, allt frá því það var 17 ára.

Sá sem nú hefur stigið fram segir sjónvarpsmann BBC hafa sett sig í samband við sig í gegnum stefnumótaforrit, reynt að hitta sig en ekkert hafi orðið af því. Maðurinn hafi sett þrýsting á viðkomandi.

Sendi hatursfull skilaboð

Þá hafi hann brugðist ókvæða við þegar ungmennið sagðist geta nafngreint hann. Hann hafi sent óviðeigandi og hatursfull skilaboð til viðkomandi, sem upplifði sig ekki öruggan sökum aðstöðumunar milli sín og mannsins. Þá segist ungmennið engin tengsl hafa við þann sem fyrstur steig fram með ásakanir gegn sjónvarpsmanninum. 

Þessar vendingar vekja upp nýjar spurningar í máli mannsins, að því er segir í umfjöllun BBC. Fréttastofan hafi haft samband við lögmann mannsins en ekki fengið nein viðbrögð við ásökunum sem fram komu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert