Úkraínu verður boðin aðild að Atlandshafsbandalaginu (NATO) þegar skilyrði til aðildar eru uppfyllt og þegar öll aðildarríki bandalagsins samþykkja aðildina. Þá hefur kröfum til aðildar verið breytt til að Úkraína geti orðið meðlimur fyrr.
Þetta kom fram í máli Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, við blaðamenn í dag. Leiðtogafundur NATO hófst í dag og stendur fram á miðvikudag.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, gagnrýndi NATO harðlega á Twitter í dag fyrir að vera hvorki búið að setja sér tímaramma um að bjóða þeim í bandalagið né um umsókn þeirra í það.
„Svo virðist sem hvorki sé vilji til að bjóða Úkraínu í NATO né gera landið að aðildarríki,“ skrifaði Selenskí á Twitter.
Á blaðamannafundinum tilkynnti Stoltenberg að bandalagið hefði breytt þeim kröfum sem þarf til að Úkraína geti hlotið aðild að NATO.
Með breytingunni mun Úkraína ekki þurfa að sækja um að fá svokallaða MAP stöðu (e. Membership Action Plan). Verður umsóknarferlið því eins þrepa ferli í stað tveggja þrepa.