„Óvissunni um aðild Svía loks eytt“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er nú stödd í Vilníus til að …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er nú stödd í Vilníus til að sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), greindi óvænt frá því í gærkvöld að Tyrkir hefðu fallist á aðildarumsókn Svía. Það gerði hann á blaðamannafundi með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í Vilníus í Litháen. Þar hefst í dag leiðtogafundur NATO.

„Þessar fréttir koma óneitanlega gleðilega á óvart,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið, nýkomin til Vilníus í gærkvöld, skömmu eftir að Stoltenberg hélt fund sinn.

„Það bárust þau tíðindi að það hefði loks komist hreyfing á þessi mál á fundum nú í aðdraganda leiðtogafundarins. Við fögnum því að þar er að komast í höfn mál, sem Norðurlöndin hafa staðið saman um, og ljóst að afstaða Tyrkja hefur breyst mikið.“

Þar vísaði Katrín til þess að í gær virtist andstaða Tyrkja við inngöngu Svía heldur vera að harðna en hitt. Erdogan hefur mánuðum saman verið helsti Þrándur í Götu þeirra inn í NATO en í gær gerði hann það að kröfu Tyrkja fyrir tilslökunum að Evrópusambandið (ESB) liðkaði til fyrir áratugalöngum og árangurslausum aðildarumleitunum Tyrkja. NATO og ESB eru alls óskyld samtök en talsmaður ESB vísaði í gær þessari kröfu á bug.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti tekur í sáttahönd Ulfs Kristerssons, forsætisráðherra …
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti tekur í sáttahönd Ulfs Kristerssons, forsætisráðherra Svía, en á milli er Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sem miðlaði málum. AFP/Henrik Montogomery

Sögulegur áfangi

Stoltenberg sagði í gærkvöld að afstöðubreyting Tyrkja markaði sögulegan áfanga fyrir NATO, kvöldið fyrir sögulegan leiðtogafund. Talið er að tyrkneska þingið samþykki aðild Svía fyrir sitt leyti í dag og að Ungverjar sigli í kjölfarið. Í NATO þurfa öll aðildarríkin að vera á einu máli um inngöngu nýs ríkis, enda gildir þar sú regla að árás á einn sé árás á alla.

Á leiðtogafundinum má gera ráð fyrir að stuðningur NATO við Úkraínu í vörn sinni gegn innrás Rússa verði áréttaður. Hugsanlega kann breytingin einnig að leiða til þess að aðildarríkin verði ódeigari við að gefa til kynna við Úkraínumenn hvaða leið sé þeim greið inn í NATO að styrjöldinni lokinni, líkt og Selenskí Úkraínuforseti hefur eindregið hvatt til.

Katrín sagði að mikið hefði unnist undanfarna daga í þá átt. „Við erum bjartsýn á að þessi fundur geti sent skýr skilaboð um framtíðaraðild Úkraínu, þó það gerist ekki hér og nú.“ Hún sagði að meðal helstu verkefna á fundinum væri samþætting varnaráætlana, sem hefði verið undirbúin að undanförnu, en eins framlög ríkja til varnarsamstarfsins, sem í flestum tilvikum þyrftu að aukast. „En aðalmálið nú er að óvissunni um aðild Svía hefur loks verið eytt og við vonum að nú gangi allt eftir.“

Snúður Erdogans

Víst þykir að stuðningur Erdogans hafi kostað sitt en aðild að ESB var aldrei í boði. Tyrkir hafa verið í einhvers konar viðræðum um aðild að ESB allt frá árinu 1987 án þess að mikið hafi þokast og aðild í raun enn ólíklegri eftir að Erdogan herti tökin.

Hins vegar var greint frá því að Erdogan myndi eiga tvíhliða fund með Joe Biden Bandaríkjaforseta í dag, en líklegt er að hann hafi smurt einhverju á. Tyrkir vilja fala F-16 orrustuþotur af Bandaríkjunum en andstaða á Bandaríkjaþingi hefur til þessa komið í veg fyrir það. Það á eftir að koma í ljós en sennilega fær Erdogan eitthvað fyrir snúð sinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka