Rússnesk stjórnvöld telja öryggishagsmuni landsins í hættu hljóti Svíar inngöngu í Atlandshafsbandalagið (NATO).
Greint var frá því í gær að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, muni samþykkja inngöngu Svíþjóðar í NATO. Viðræður bandalagsins og Svíþjóðar hafa staðið yfir síðan á síðasta ári en Erdogan hefur helst staðið í vegi fyrir því að Svíþjóð hljóti inngöngu.
„Neikvæðu afleiðingarnar eru ótvíræðar,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, við blaðamenn í dag. Bætti hann við að verið væri að skipuleggja gagnráðstafanir.
Talið er að tyrkneska þingið samþykki aðild Svía í dag og að ungverska þingið geri það sama í kjölfarið. Í NATO þurfa öll aðildarríkin að vera á einu máli um inngöngu nýs ríkis, enda gildir þar sú regla að árás á einn sé árás á alla.